Friday, November 29, 2002

Hólí fokkíngs sjitt

Mér líður alltaf betur eftir að hafa horft á eitthvað svona - þá sé ég að ég er hreint ekkert svo mikið frík, a.m.k. ekki miðað við svona imbesíla.

Skemmtileg pæling, samt soldið ósmekkleg. Ástþór fær 4,6 - ég hefði giskað á þristinn, en hann er greinilega meiri sjarmör en mig grunaði.

So sad, but so true.

Dittó - Hasselhoff myndband - hlunkurinn að syngja!

Katrín Debútterar

Hlaut að koma að því að ég linkaði á - eða skrifaði um - Katrínu Miklu. Engin jarðskjálftakomment heldur langaði mig bara að láta í ljós ánægju með þessa færslu hennar - hún getur verið nasty, sem ég kann að meta í fólki.

Mundi ætlar að plögga sig frá vefnum fram yfir helgi - yeah right! Við internetnördarnir þolum ekki svo langan cold turkey. Ég spái því að hann muni ekki uppfæra síðuna - svona til að viðhalda blekkingunni - en muni heimsækja allar þær síður sem hann kemur höndum yfir. Maður sparkar ekki fíkninni svo auðveldlega.

Þessi brandari, sem NB er eldri en hárkollan hans Bó Halldórs, myndi væntanlega fúnkera betur hefði sögumaður notað aðra brú en Ölfusárbrúna.
Snilldarblogg

Unnur er greinilega með eitthvað annað en hárið á milli eyrnanna. Þessi pistill hérna, sem ber heitið Pælingar og Spælingar er það besta sem ég hef lesið í dag - fyrir utan náttúrlega snilldina mína á Deiglunni, en það er náttúrlega óþarfi að taka það fram.

Svansson er hins vegar dónafretari íslenska bloggsins.

Það er ekki að ástæðulausu að Mundi kallar Sverrij "önuga bróðurinn" - Sverrir er, eins og flestir "alvöru" vinstrimenn laus við allt sem skopskyn gæti kallast. Hann segir hér að honum hafi aldrei fundist Baggalúturinn fyndinn þegar allir skynugir menn sjá að Lúturinn er með betri satíruvefjum á Netinu. Ég held að kommar eins og Sverrir sé líkamlega ófært að hlæja þegar gert er grín að fólki sem er vinstra megin við miðjuna - nema ef ske kynni krata, kommarnir hata kratana nánast jafnmikið og þeir hata "fasistana á Deiglunni".
Southpark dánlóds

Mr. Twig, sem löngum hefur verið helsta uppspretta nýrra SouthPark þátta á netinu hefur lagt upp laupana vegna gríðarlegs álags á netkerfi síðunnar. Þeir sem eru, eins og ég, krónískir SP-fíklar geta hins vegar nálgast stöffið á þessari síðu hér - Southparkx.net. Hún er komin í kladdann.

Annars er nýjasti SouthPark þátturinn ekki eins góður og síðustu þrír. Bestur þeirra nýjustu þykir mér LOTR spúfið og Death Camp of Tolerance kemur ekki langt á eftir. The Biggest Douche In the Universe skýtur að vissu leyti framhjá en ætti væntanlega frekar upp á pallborðið hjá manni ef maður þekkti John Edwards.
Demókratar í endalausu rugli

Skrifaði pistil á Deiglunni um væntanlega vinstrivillu Demókrata og hvað sú villa sé nú óheppileg fyrir alla aðila - sérstaklega bandarísku þjóðina sé hún nógu vitlaus til að kjósa fyrir sig vinstrisinnaðan Demókrataflokk eða -forseta.
Lélegur humar

Var að renna í gegnum Bónus auglýsingabækling sem laumaðist inn um lúguna í gær eða fyrradag. Í þessum bækling er svo sem ekkert nýtt eða skemmtilegt að sjá - Bónusbæklingarnir hafa ekki nærfatahorn eins og þeir frá Hagkaup - fyrir utan hreinskilnustu auglýsingu sem ég hef séð í langan tíma. Á baksíðu bæklingsins, við hliðina á einhverri heppinni húsfrú í rauðri flíspeysu (hún vann 20.000 kr. úttekt í Bónus) er auglýsing fyrir "lélegan humar". Hvílík snilld! Og ef ske kynni að lesendur hafi ekki alveg áttað sig á því um hversu afleita vöru er að ræða er tekið fram að um "skelbrot" sé að ræða.

Ég hef heyrt talað um "truth in advertising" en ég held að þeir Bónusfeðgar hafi eitthvað mis eitthvað. Góð hugmynd samt.

Thursday, November 28, 2002

Ég klára aldrei neitt!

Ég er þeirri (ó)náttúru gæddur að ég les venjulega svona þrjár til fjórar bækur í einu. Á sumum geri ég hlé vegna þess að þær missa dampinn í kafla 13, í önnur skipti verð ég að gera það vegna þess að nýja Pratchett bókin var að koma út og maður les Pratchett um leið og hann birtist (sama á við um Card og Martin).

Til að sýna fram á umfang vandamálsins, ef vandamál má kalla, fylgir hér listi yfir þær bækur sem finna má á náttborðinu mínu. Þar sem ég les aðallega uppi í rúmi (að lesa og læra er tvennt algerlega aðskilið) eða á klósettinu - á settinu les ég aðallega Dilbert eða stöku Andrésblað - má segja að hér sé um tæmandi lista að ræða...að því marki sem hann getur verið tæmandi. Athugið að sumt hef ég klárað að lesa en ekki komið fyrir uppi í hillu - ég er ekki að lesa tuttugu bækur/blöð í einu.

1. The Two Towers - J.R.R. Tolkien
2. The Return of the King - J.R.R. Tolkien
3. Snow Crash - Neal Stevenson
4. Embers - Sándor Márai
5. Liberty Meadows: Eden - Frank Cho (Sjá síðasta póst)
6. Stupid White Men - Michael Moore
7. G.U.R.P.S. Martial Arts - C.J. Carella
8. The Little Giant Encyclopedia of Runes - Sirona Knight
9. Modus Operandi: A guide to How Criminals Work - Mauro V. Corvasce & Josheph R. Paglino
10. Complete Poems in English - John Milton (Afar flott innbundin útgáfa frá 1909 sem mamma gaf mér eftir Bandaríkjaförina í okt.)
11. War Story: The Reivers - Garth Ennis (Myndasögublað)
12. Rip-Off: A Guide to Crimes of Deception - Fay Faron
13. Just The Facts Ma'am: A Guide to Investigators and Investigation Techniques - Greg Fallis
14. Choke - Chuck Palahniuk
15. The Authoritative Calvin and Hobbes - Bill Watterson
16. Attack of the Deranged Mutant Killer Monster Snow Goons - Bill Watterson
17. Homicidal Psycho Jungle Cat - Bill Watterson
18. There's Treasure Everywhere - Bill Watterson

Sæmilegt safn? Calvin og Hobbes sparka náttúrlega í rassa og Tolkien á sér enga líka. Er ekki enn byrjaður á Milton - vantar eiginlega ódýra útgáfu með skýringum áður en ég legg í hann. Svo er útlit fyrir að öllum ólesnum bókum verði sparkað enn neðar í röðina þar sem ný Pratchett bók var að koma út. Night Watch - vúhú!
Liberty Meadows

Ég er nörd. Ég legg reyndar aðeins aðra merkingu í orðið heldur en almennt er - í mínum munni hefur það víðtækari merkingu. Ég nota það til að lýsa manneskju sem hefur mikinn áhuga á einhverju. Ég er t.d. kvikmyndanörd, myndasögunörd, netnörd og tölvuleikjanörd. Þegar aðrir myndu nota orðið nörd til að lýsa manneskju eins og Pétri Blöndal nota ég orð eins og Geek, Douche eða lúði.

Allavegana. Frank Cho er skemmtilegur teiknimyndasöguteiknari/-höfundur sem fyrst gerði garðinn frægan meðan hann var í háskóla. Þá skrifaði hann og teiknaði vikulega teiknimyndasögu í skólablaðið sem kallaðist University2 (í öðru veldi). Síðan hann útskrifaðist hefur Frank komið að ýmsum verkefnum en helst er hann þekktur fyrir Liberty Meadows teiknimyndaseríuna. Á þessari síðu er hægt að nálgast teikningar, forsíður og óritskoðaðar teiknimyndir eftir Frank. Good friggin' stuff.
Hvar í Hogwarts?

Í hvaða húsi myndir þú lenda værir þú nemandi við Hogwarts? Samkvæmt þessu prófi væri ég Ravenclaw, verst að ég veit fjandan ekkert um Ravenclaw frekar en Hufflepuff.

Want to Get Sorted?
Við fasistarnir

Þeir Múrfélagar eru sniðugir strákar. Nýjasta útspilið hjá þeim er greinarkorn um Berlínarmúrinn og aðra girðingarstubba og (að sjálfsögðu) að allir hægra megin við Stalín eru sálarlaus handbendi Djöfulsins. Í þessari grein sakar Stefán Pálsson okkur Deiglupenna um að vera málsvara fasískra sjónarmiða í umræðunni um Ísrael/Palestínu. Ég geri ráð fyrir því að hver sá sem ekki trúir því að Ísraelar geti ekki og vilji ekki gera Palestínumönnum annað en grikki og bjarnargreiða, sé í augum Stefáns fasisti og barnamorðingi - að minnsta kosti óbeint.

Menn eins og Stefán vilja ekki heyra á það minnst að til séu einstaklingar innan palestínsku þjóðarinnar sem vilja stríð og manndráp. Í augum Stefáns eru samtök eins og Hamas ekki hryðjuverkasamtök heldur hópar vonlausra, en góðra manna, sem hreinlega hefur verið ýtt út í hryðjuverk af Ísraelsmönnum. Raunveruleg ástæða þess að Stefáni er svona meinilla við Ísrael og Ísraelsmenn er að sjálfsögðu stuðningur Bandaríkjanna við þá, en fólk eins og Stefán stendur á því fastar en fótunum að Bandaríkin séu orsök alls hins illa í heiminum og ekkert gott sé þar að finna.

Hvað varðar fasistakommentið held ég að síendurtekin skot á VG í flugufótum Deiglunnar hafi hitt í mark og að þetta sé klaufsk tilraun kommans til að hefna sín.

Monday, November 25, 2002

Trúfræði handa litlum börnum

Svona síður eru alltaf frekar cheap shots á kristið fólk (aldrei er gert grín að öðrum trúarbrögðum) en þessi síða er samt sem áður drullufyndin.
Framhald...

Allavegana. Svona var tíðarandinn og kenningin um allsherjarstríð var ráðandi í öllum vestrænum herjum og herjum sem skipulagðir voru að vestrænni fyrirmynd (t.d. sá japanski). Þetta afsakar ekki það sem gert var í stríðinu en það útskýrir af hverju gripið var til þessara aðgerða. Bretar virðast hafa frá fyrstu tíð hafa gert sér fulla grein fyrir því að loftárásir á íbúðahverfi væru ekki nokkuð sem siðaðar þjóðir gerðu - þrátt fyrir að hafa þurft að þola slíkar árásir sjálfir. Þetta sést á því að Arthur "Bomber" Harris, yfirmaður sprengjuflugvélaflotans breska var eini háttsetti hershöfðinginn sem aldrei var aðlaður að stríðinu loknu.

Burtséð frá þessu er ljóst að kenningin um allsherjarstríð - þar sem allt er lagt í sölurnar og fullkominn sigur er eina ásættanlega útkoma átaka - er ekki lengur ríkjandi í herjum Vesturlanda. Þegar herfræðingar NATO gerðu rannsóknir og líkön af hugsanlegu stríði við Varsjárbandalagið í Evrópu komust þeir alltaf að þeirri niðurstöðu að slíkt stríð myndi ætíð enda með því að báðir aðilar dembdu kjarnorkuvopnaforða sínum yfir hinn. Kenningin um allsherjarstríð krafðist þess að sá sem höllum fæti stæði í átökunum beitti kjarnavopnunum til að rétta sinn hlut. Hinn aðilinn myndi þá svara í sömu mynt með fyrirsjáanlegum afleiðingum.

Hryllingurinn sem menn upplifðu í seinni heimsstyrjöldinni hafði einnig þau áhrif að aðgerðir sem þóttu sjálfsagðar þá - svo sem eins og að leggja heilu borgirnar í rúst í þeim tilgangi einum að "minnka baráttuþrek þjóðarinnar" - yrðu ekki notaðar aftur. Verið getur að ég sé með þessari fullyrðingu að láta í ljósi barnslega trú á hið góða í manninum, að minnsta kosti er auðvelt að sýna fram á voðaverk sem framin hafa verið af vestrænum herjum eftir lok síðari heimsstyrjaldar - eins og loftárásirnar á Hanoi. ´g bendi hins vegar á að kenningar eru lífsseigar þegar þeim hefur á annað borð náð bólfestu. Nokkurn tíma hefur tekið að losna við þá herforingja sem trúir voru kenningunni um allsherjarstríð og örugglega eru enn fjölmargir sem aðhyllast hana.

Ég bendi hins vegar á þann megin mun sem var á stríðinu í Víetnam og Persaflóastríðinu 1991, loftárásunum á Serbíu 1999 og stríðinu í Afganistan. Að sjálfsögðu létu almennir borgarar lífið í þessum þremur stríðum, en fjöldi þeirra nemur hundruðum eða nokkrum þúsunda, meðan fjöldi Víetnama sem féllu í á sjöunda og áttunda áratugnum nam hundruðum þúsunda ef ekki milljónum. Það sem meira máli skiptir er að hershöfðingjar þeirra vestrænnu herja sem í þessum þremur stríðum börðust gerðu hvað þeir gátu til að mannfall meðal almennra borgara yrði sem minnst.
---

Vá, allt of langur póstur. Það er samt það góða við Múrinn að maður verður aldrei uppiskroppa með eitthvað að skrifa um þegar maður les hann daglega. Það er alltaf eitthvað sem maður er ósammála.
Múrinn samur við sig

Í hleðslunni á vefritinu Múrnum er fjallað um Winston Churchill og meint mannréttindabrot hans fyrir, og í, seinni heimsstyrjöld. Ég skal horfa framhjá þeirri staðreynd að fyrir utan eina fullyrðingu um meint kynþáttahatur Churchills fjallar greinin hreint ekkert um meint mannréttindabrot hans. Múrmenn gefa sér reyndar að hann hafi verið svo mikill kapítalisti (og þar af leiðandi handbendi djöfulsins) að hann hefði væntanlega notað eiturgas á breska verkamenn hefði honum enst aldur og heilsa til.

Greinin fjallar að stórum hluta um mannréttindabrot sem framin voru af sovéskum hermönnum í þýskalandi á síðustu mánuðum stríðsins og ættu það ekki að vera neinar stórfréttir. Sovéskir hermenn fengu beinlýnis fyrirmæli um að nauðga, drepa og misþyrma þýskum borgurum - nú skyldi hefnt fyrir þjáningar sovésku þjóðarinnar. Eins og áður segir eru þetta engin ný sannindi. Rússneskir hermenn voru fantagóðir sem slíkir - frægir fyrir óttaleysi og hlýðni - en þegar af valnum var stigið hegðuðu þeir sér engu betur en villidýr.

Hvað varðar loftárásirnar á þýskar borgir verður það að viðurkennast að þær eru smánarblettur á annars glæsilegri framgöngu bandamanna (þ.e. allra annara en Rússa) í stríðinu. Það verður hins vegar að horfa til þess að á þessum tíma voru ríkjandi kenningar um allsherjarstríð (e. Total War) sem eiga sér uppruna í riti Carls Von Clausewitz "Um Stríð" (e. On War). Samkvæmt henni ber herjum hvers lands að gera hvað sem þeir geta til að knésetja andstæðinginn. Með kenningunni var horfið frá fyrri framkvæmd sem einkenndist af mjög takmörkuðum stríðsátökum. Eftir Þrjátíu ára stríðið (1619-1648), þar sem talið er að allt að þriðjungur þýsku þjóðarinnar hafi fallið, reyndu þjóðhöfðingjar að takmarka mjög umfang stríðsátaka. Allt frá því að Clausewitz ritaði bók sína hafði kenningunni um allsherjarstríð vaxið fylgi og segja má að húnm hafi verið ráðandi í fyrri heimsstyrjöldinni. Þetta sést meðal annars á því að Bandamenn ákváðu að stríðinu lyki ekki nema með skilyrðislausri uppgjöf Þýskalands og Austurríkis. Loftárásirnar á Dresden, Berlín og margar fleiri borgir eiga upptök sín í þessari kenningu - hver þjóðverji sem léti lífið minnkaði framleiðslu- og hernaðarmátt þýska ríkisins.

...Framhald síðar...
Settið úr landi

Jæja, þá er gamli maðurinn farinn til Spánar og Mamma að undirbúa ferðalag sitt til Svíaríkis, sem hefst í fyrramálið. Eins og venjulega stendur til að móðir mín kippi með sér Boss Deodorant Stick handa syni sínum þegar hún fer út. Drengurinn er annaðhvort svo hrottalega illa lyktandi - eða loðinn undir höndunum - að hann spænir upp deóið eins og Anna Nicole étur súrsaðar agúrkur (eru í miklu uppáhaldi hjá bollunni).

Annars geri ég ráð fyrir rólegum dögum framundan. Verandi einn í húsinu get ég gert ýmislegt sem almenn siðsemi bannar að gert sé að öðru fólki viðstöddu. Það getur verið að einhverjum þyki ógeðfellt að spássera um í sýrðum rjóma einum "fata", en það kitlar ekki aðeins hláturtaugarnar heldur einnig aðra taugaenda út um allan líkama manns.

I am of course kidding. Ég er alltaf í sundskýlu þegar ég "klæði mig í" mjólkurafurðir. Annað væri ógeð.

Friday, November 22, 2002

Heimasíðulyftutónlist

Eins og þeir vita sem þekkja mig er margt sem ég læt fara í taugarnar á mér. Þetta er náttúrlega stór karaktergalli, en ekki stendur til að bæta úr. Ég held að hæfilegt magn af pirringi og nöldri sé skemmtilegt krydd í tilveruna - ef ekki fyrir mína nánustu þá fyrir mig sjálfan. Það sem fer sérlega mikið í taugarnar á mér núna rétt í þessu augnabliki eru heimasíður með tónlistarstefi. Þetta eru venjulega síður stelpna sem eru nýbúnar að læra undirstöðuatriði html og telja það merki um góða heimasíðu að troða á hana eins miklu drasli og mögulegt er.

Þessar síður eru venjulega mjög þungar vegna allra kettlinga- og hvolpamyndana sem á þeim hvíla eins og litlar, loðnar, sætar mörur og oftar en ekki hafa dömurnar skellt inn einhverju sykursætu lagi. Venjulega er þetta eitthvað Enyusorp eða jafnvel Greensleeves - enska þjóðlagið sem sætt hefur fleiri hópnauðgunum en Robert Downey Jr.

Bara að nöldra - enginn punktur með þessu. Bara nöldur - svona rétt til að lífga soldið upp á stemminguna.

Thursday, November 21, 2002

Dívukvöld

Við félagarnir stefnum á að halda svokallað Dívukvöld einhverntímann eftir að prófum lýkur. Dívukvöld er ekki, eins og margir gætu haldið, kvöld þar sem við klæðumst galakjólum, málum okkur og stundum alls kyns ólifnað. Á Dívukvöldi mætum við heim til einhvers okkar (væntanlega Ottós) með bjór og skemmtilegheit og horfum á kvikmyndir eins og Glitter (Mariah Carey), Crossroads (Britney Spears), Bodyguard (Whitney Houston), Shanghai Surprise (Madonna) eða jafnvel Swept Away (Madonna).

S.s. Allt myndir þar sem einhver tónlistardrósin leikur aðalhlutverkið. Þetta ætti að verða stórskemmtileg lífsreynsla, þótt hugsanlegt sé að við munum reyna að klóra úr okkur augun áður en yfir lýkur.

Wednesday, November 20, 2002

Ömó

Í síðasta pósti sagði ég tvisvar sinnum að "ég hefði orðið fyrir miklum vonbrigðum" með Potterinn. Ekki skemmtilegt til afspurnar að geta ekki fundið fleiri en eina leið til að lýsa vonbrigðum mínum.

Damn! "Vonbrigði" í þriðja sinn. Samheitaorðabókin segir að ég geti notað orðið "Vonsvik" en mér finnst það óþjálla.
Potterinn

Potterinn saug. Kannski full harkalega til orða tekið en ég varð fyrir miklum vonbrigðum með Harry Potter: The Chamber of Secrets. Chris Columbus hefur gert þá megingloríu að vera of trúr bókinni. Í stað þess að aðlaga söguna hvíta tjaldinu eltir hann bókina, kafla fyrir kafla, svo úr verður sundurlaus mynd sem er hreinlega langdregin á köflum.

Þar sem ég er mikill aðdáandi Potter bókana varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Galdurinn við að færa sögu af bók og upp á kvikmyndatjald er að vita hverju á að sleppa og hverju á að halda. Hverju á að breyta og hvað á að standa óbreytt. Peter Jackson og co. kunna þetta. Fjölmörgum atriðum var sleppt úr LOTR og öðrum breytt töluvert án þess að svo mikið sem eitt múkk hafi heyrst frá hinum fanatískustu aðdáendum Tolkiens. Columbus breytti ekki neinu af ótta við að styggja aðdáendur myndanna - sem langflestir eru undir tíu ára aldri og hafa því ekki hundsvit á nokkrum sköpuðum hlut, frekar en Columbus - og situr uppi með tveggja stjörnu mynd sem er byggð á fjögurra stjörnu bók.

Sorglegt.

Tuesday, November 19, 2002

Greyið hann Mundi

Hann á enga vini - nema mig náttúrlega. Ég skráði mig á þennan afmælislista við fyrsta tækifæri. Svo er náttúrlega hugsanlegt að hér sé einungis um að ræða sálfræðilega kúgun af hálfu stráksins, sem vill með þessu móti þröngva sem flestum til að skrá sig. Helvítis Mundi.

Bara grín. Hann er frábær.
Ábyrgð Palestínumanna

Skrifaði Deiglupistil um ástandið í Ísrael og hernumdu svæðunum. Ég vil taka það fram að ég er ekki á þeirri skoðun að Ísraelar séu aðeins saklaus fórnarlömb. Hegðun ísraelskra stjórnvalda undanfarin tvö ár hefur ekki beinlýnis gefið tilefni til húrrahrópa, en ég vildi með pistlinum benda á, eins og ég hef gert hérna, að sökin liggur hjá Palestínumönnum í meira mæli en fram kemur í fjölmiðlum. Þetta þýðir ekki að sök Palestínumanna sé meiri en Ísraelsmanna (hún getur vel verið það, en ég tek ekki afstöðu til þess í augnablikinu) heldur aðeins að mér finnst fjölmiðlar of áfjáðir í að kenna Ísraelsmönnum um alla helvítis klessuna.

Ástæðan fyrir þessari afstöðu fjölmiðla er að mínu mati ekki, eins og sumir gætu haldið, djúpstætt gyðingahatur Vesturlandabúa, heldur eru ástæðurnar nokkrar og annars eðlis. Langar mig að telja upp nokkra hugsanlegar ástæður.

a) Bandaríkin hafa löngum stutt vel við bakið á Ísraelum.
Nú er það svo að ákveðinn hópur fólks er á móti Bandaríkjunum og öllu því sem þeim kemur nærri. Einhverjir fjölmiðlamanna eru haldnir þessum fordómum og gætir áhrifa þeirra í fréttaflutningnum.
b) Ísraelar eru 'stóri sterki aðilinn'.
Í okkar menningu er ákveðin tilhneiging til að hefja lítilmagnann upp á stall á kostnað þess sem sterkari er. Einhvern veginn grunar mig að Ísraelar gjaldi þess að vera fjölmennari, ríkari og að hafa mun sterkari her en Palestínumenn.
c) Ísraelska ríkisvaldið.
Voðaverk Ísraela eru unnin af ísraelska ríkinu og hernum en hryðjuverk Palestínumanna af öfgahópum, sem ekki eru tengdir heimastjórninni beint. Eðlilega eru gerðar meiri kröfur til ríkisstjórna og ríkisvalds, en mér finnst vera ákveðin tilhneiging til að horfa framhjá þeirri frumskyldu Ísraelska ríkisins að vernda borgara sína. Að vissu leyti hafa Ísraelar sýnt verulega sjálfstjórn í aðgerðum sínum og held ég að aðrar ríkisstjórnir hefðu ekki haldið svo aftur af herjum sínum við svipaðar aðstæður.
---

Fyrsti lögfræðingurinn

Þetta er gaurinn sem varði Aron og co. eftir vandræðin með Gullkálfinn. Hann fékk Aron sýknaðan og hóf eftir það kennslu í lögfræði, svikum og prettum.
Meira um Deiglupistilinn

Var að klára Deiglupistilinn. Músin hoppaði á mig meðan ég var að borða kvöldmatinn og held ég að ég hafi aldrei skrifað Deiglupistil á jafn skömmum tíma. Venjulega er ég að bjástra við þetta í fleiri klukkutíma, en ég held að þessi gaur hafi ekki tekið mig meira en einn tíma. Sumir segja að góður texti skrifi sig sjálfur - sem þýðir að þetta sé afburða góður pistill, en aðrir gætu sagt að hér væri um fúsk vinnubrögð að ræða og pistillinn því sorp.

Mér er ómögulegt að dæma um það sjálfur.

Allavegana, ég er að fara að sjá Harry Potter á morgun með Eiríki vini mínum. Hann fékk miða á sýninguna í gegnum klíku og var svo vinsamlegur að bjóða mér að njóta ávaxta spillingarinnar með honum. Hann er góður gaur hann Eiríkur.

Monday, November 18, 2002

Deiglupistill

Á að skrifa Deiglupistil fyrir morgundaginn. Átti reyndar að skrifa á föstudag en Torfi bað mig um að skipta við sig, sem ég og gerði - af því að ég er svo afspyrnu "næs" gaur. Er ekki alveg með það á hreinu í augnablikinu hvað ég á að skrifa um, en músin (músan mín er mús) hlýtur að heimsækja mig fyrr en varir.

Þó að ég sé ekki sammála Jóhannesi Birgi um kosti og galla Sjálfstæðisflokksins, þá er afar áhugaverður tölfræðimoli í nýjustu færslunni hans. Þar fjallar hann um þann mikla fjölda MR-inga og lögfræðinga sem situr á Alþingi. Ég skil ekki af hverju ég á að leggja hart að mér í náminu eða öðru. Sem MR-ingur og laganemi er ég sæmilega vel settur sama hvað ég geri.
South Park Repúplikanar

Afar skemmtileg grein hérna um það sem höfundurinn kallar 'South Park Republicans' - fólk sem ekki fellur inn í stereótýpuna af hvítum, miðaldra karlmanni sem er fanatískur í sinni kristnu trú. Hér er um að ræða fólk á öllum aldri, báðum kynjum og mýgrút af kynþáttum, sem kýs Repúplikanaflokkinn þrátt fyrir eigið trúleysi og takmarkalausan áhuga á rappi og pr0ni. Þetta fólk kýs flokkinn vegna þess að það trúir á frelsi einstaklingsins, frelsi í viðskiptum og það að ríkisvaldið eigi ekki að troða báðum lúkunum ofan í alla koppa.

That's pretty fuckin' sweet right there.
Ábyrgðarflótti

Góður punktur.

Saturday, November 16, 2002

Gagnrýnin

1. Southpark
Southpark þátturinn var excellent. Hann ber það gullna heiti The Return of the Fellowship of the Ring to the Two Towers, og í honum þurfa félagarnir fjórir (sál Kenny's er enn í hausnum á Cartman) að skila eintaki af Lord of the Rings, sem á hvílir bölvun, til vídeóleigunnar áður en það er um seinan. Butters horfir á sinn fyrsta klámara, Backdoor Sluts 9, og hefur það vægast sagt óæskilegar afleiðingar í för með sér fyrir hið viðkvæma sálarlíf drengsins.

Matt og Trey virðast langt frá því að brenna upp. Hver snilldin rekur aðra í Southpark og er sjötta sería sú besta af þeim öllum, og er þá mikið sagt. Þátturinn fær 3,5 af fjórum mögulegum stjörnum.

2. Monster
Hal Hartley er sálarlaust helvíti sem á ekkert gott skilið. Ekki veit ég hvernig hann hefur platað Friðrik Þór til að taka þátt í þessari klessu með sér, en Monster er án efa svartasti bletturinn á annars glæstum ferli Friðriks. Það stendur ekki steinn yfir steini í sögunni, sem er hryllileg blanda af hrollvekju og sápudrama, persónurnar eins óspennandi og hægt er og flatur leikurinn bætir þar ekkert úr. Ég hélt ekki að ég gæti fundið mynd sem jafnaðist á við Freddy Got Fingered, en Monster gæti allt eins verið versta mynd sem ég hef séð.

3. Gnarrenburg
Þessi nýi þáttur Jóns Gnarrs byrjar ekki vel. Fyrsti þátturinn var í slakara lagi og þáttur númer tvö enn slakari. Í rauninni voru einu ljósu punktarnir í þættinum þegar Jón sjálfur stóð og rausaði út í loftið. Gestirnir voru þrautleiðinlegir (hef reyndar óbeit á Erpi, þannig að dómurinn litast svolítið af því) og innskotin um öryrkjana þreitt. Löng umræða um það hvernig hægt sé að 'njósna í gegnum tölvuskjái' hætti að vera fyndin áður en hún byrjaði og Barði mætti alveg finna sér eitthvað annað orð en 'hress'. Ég er á því að Jón Gnarr sé einn sá fyndnasti maður sem landið byggir, en hann verður að hysja upp um sig buxurnar eigi þessi þáttur ekki að sigla í strand með feril hans innanborðs.

Mikki Sjöhundruð Ára

Gagnrýnin kemur á morgun, er bara of þreyttur.

Annars rakst ég á þessa afar skemmtilegu frétt, en í henni segir frá því að viðgerðarmenn á kirkju í Austurríki hafa fundið hundgamla teikningu af mús, sem virðist vera forfaðir Mikka Músar!

Svo er náttúrlega hugsanlegt að músarfjandinn eldist ekkert og deyi aldrei, svona eins og Flökkugyðingurinn.

Friday, November 15, 2002

SouthPark

Er að dánlóda nýjasta SouthPark þættinum, sem á að vera eitthvað LOTR spoof, auk þess sem Butters horfir á sína fyrstu klámmynd. Hljómar allt rosalega vel.

Svo er ég að fara á frumsýningu íslensk/amerísku kvikmyndarinnar 'Monster' eða 'No Such Thing' í boði Eiríks vinar míns og eftir það er stefnan sett á Gnarrenburg.

Næsta færsla verður ein stór gagnrýni á allt ofanritað.

P.S. Þetta er alger snilld.

Thursday, November 14, 2002

Fólk er faul

Munið þið eftir SouthPark þættinum þar sem Cartman kaupir skemmtigarð og bannar öllum að koma inn í hann? Fyrir þetta eitt verður skemmtigarður, sem áður þótti lummó og óspennandi, sá staður sem allir vilja heimsækja og þegar Cartman loksins neyðist til að opna hann (til að borga fyrir viðhald, samlokur og sykurfroðu) bíða íbúar Southpark í löngum röðum eftir að komast inn.

Nákvæmlega sama element er í gangi varðandi Beaujolais Nouveau vínvitleysuna frönsku. BN er í stuttu máli þunnur berjasafi, áfengur að vísu, sem ekki er hægt að nota í almennileg vín. Fyrir ekki svo mjög löngu síðan þótti þessi fjandi nánast ódrekkandi og lá við að væri notaður sem gripafóður. Þá datt einhverjum snillingnum það í hug að banna alla sölu á BN árgangi hvers árs fyrr en á ákveðnum degi, og eins og hendi væri veifað breyttist þetta þriðja flokks berjadjús í eftirsóknarverða glamúrvöru.

Fyrir það eitt að fara á bannlista, þó ekki væri nema tímabundið, varð berjakreistan að söluvarningi sem fólk bíður í ofvæni um heim allan eftir að fá að lepja - oft í hóp annarra laphunda sem keppast um að hrúga á hlandið hrósi. Manni dettur það í hug, svona þessu tengt, að ef menn ösnuðust til að lögleiða kannabisefni myndi aðdráttarafl þess dvína verulega. Þetta "forbidden fruit" element er soldið ríkt í okkur mönnunum.
---

Það er reglulegur viðburður hér á íslenska vefnum, sem og annars staðar, að hraunað er yfir Ísraela fyrir að taka hart á sjálfsmorðsárásarhrottum og þeim sem gera þá út. Í hvert sinn sem ísraelski herinn fer inn í flóttamannabúðir Palestínumanna á Vesturbakkanum eða Gaza í þeim tilgangi að elta uppi og handsama stríðsglæpamennina sem bera ábyrgð á dauða hundruða ísraelskra borgara fer grátkórinn í gang og talar um stríðsglæpi og níðverk.

Áður en lengra er haldið er rétt að benda viðkomandi á þá fásinnu sem fælist í því að senda nokkra ísraelska lögreglubíla inn í Jenín til að handsama leiðtoga hryðjuverkaarms Fatah, eða Hamas í borginni. Halda þeir að löggumennirnir gætu bara gengið rólegir og óáreittir upp að hryðjuverkamönnunum, handtekið þá pent, sett í járn og keyrt með þá í burtu? Eina leiðin fyrir Ísraela til að fara inn í borgirnar og eiga einhvern möguleika á að koma þaðan út á lífi er að fara inn brynvarðir og gráir fyrir járnum.

Allavegana. Grátkórinn áðurnefndi á það líka til að gleyma afar mikilvægum hlut. Ef ekki væri fyrir sjálfsmorðsárásir og önnur hryðjuverk Palestínskra öfgamanna væri ekki um neinar herferðir Ísraela að ræða. Þegar kórfélagar hrópa hástöfum að hernaðaraðgerðir Ísraelshers séu ekkert annað en "hefnd" og skili engu nema kvöl og pínu benda þeir, óviljandi þó, á þann einfalda sannleik að nánast er alltaf um að ræða viðbrögð við hrottalegum árásum Palestínumanna á ísraelska borgara.

Staðan væri allt önnur ef Arafat og félagar hefðu tekið sér Ghandi og séra Martin Luther King til fyrirmyndar. Friðsamleg mótmæli, verkföll og mótmælasetur væru miklu líklegri til að skila Palestínumönnum árangri í réttindabaráttu þeirra - og hér er ekki verið að draga úr þeirri staðreynd að á Palestínumönnum hefur verið brotið og að rétta þurfi þeirra hlut - en sú blóði drifna leið hryðju- og hrottaverka sem þeir hafa farið hingað til. Hvað gæti Ísraelsher gert, settust nokkur hundruð Palestínumanna yfir alla vegi að ólöglegum landnemabyggðum? Keyra yfir þá? Ég held nú ekki.

Þeir voru ekkert að grína, gaurarnir sem sömdu Biflíuna, þegar þeir bentu á að svo sem þú sáir svo skalt þú upp skera.

Wednesday, November 13, 2002

Everytime we say goodbye

Rhamsez virðist eiga í erfiðleikum með að skilja þau okkar sem bindumst líkamsframleiðslu okkar sérstökum vináttuböndum. Ég verð að viðurkenna að oftar en ekki sprettur fram lítið saknaðartár þegar ég geng örna minna.

Vemmó, I know.
---
Þessi síða átti að vera ákveðið fráhvarf frá ensku síðunni og átti hin ljóðræna íslenska tunga að tróna hér í öndvegi. Nafni minn Einarsson skrifar hér hins vegar afbragðsgott nöldur, á ensku, um löglegheit og verð ég að hlekkja á hann og lýsa yfir fullkomnu samþykki við það sem hann segir. Tannlæknar eru líka útsendarar hins Illa og er það ástæðan fyrir því að ég hef ekki farið til tannlæknis í átta ár. Það var um svipað leyti og ég bjó til álhattinn minn, sem kemur í veg fyrir að CIA geti lesið hugsanir mínar.

Helvítis CIA.

Talandi um samsæriskenningar, þá er þetta með betri útskýringum á fokkinu í Norðvesturkjördæmi sem ég hef heyrt hingað til.
---
Skemmtilegur punktur hjá Ernu. Hef haldið verður við þá stefnu að setja þau sem lenntu í "sléttum" sætum í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík á sama lista verður gamla Þjóðvakapakkið allt á einum lista. Jóhanna, Ásta og Mörður í efstu þremur sætunum. Það er því ekki alveg rétt sem ég hélt fram fyrr í dag að Kommarnir hefðu náð völdum í Samfylkingunni. Þjóðvakinn deilir þeim völdum.
Valdataka Kommanna

Alveg hárrétt hjá Soffíu. Það er morgunljóst að draumur hægrikrata um hæli í Samfylkingunni er nú sem maðkétið hræ. Sigurvegarar prófkjöra flokksins eru flestir gamlir Allaballar (Össur er langt frá því að vera sigurvegari þrátt fyrir að hanga í fyrsta sætinu í Reykjavík og Jóhanna er harðlínukommi inn við beinið) og hefur "sameining vinstri manna" áorkað það eitt að vinstri flokkarnir tveir breyttu um nöfn og færðust enn lengra til vinstri, burt frá almennu frjálsræði og í átt að forsjárhyggju. Þessi flótti sossanna þýðir það eitt að enn meira rúm skapast fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ættu Sjálfstæðismenn því ekki að horfa upp á mögur ár í nánustu framtíð.

Ef í ljós kemur að menn hafi haft rangt við í prófkjörinu á Norðvesturlandi er bráðnauðsynlegt að endurtaka prófkjörið. Þessi njólar hafa valdið flokknum gríðarlegum skaða með þessum fíflalátum.

Þrátt fyrir þessi læti öll sömul er ég samt á þeirri skoðun að prófkjör sé besta leiðin til að velja fólk á lista. Með því móti eru meiri líkur á að framboðslisti endurspegli vilja flokksmanna, bæði hvað varðar samsetningu og stefnumál. Svo ég tali ekki um þann mýgrút af lýðræði sem maður fær í kaupbæti. Dæmigert samt fyrir kommana að leggja allt traust á einhverja miðstjórn sem velja á fyrir flokksmenn.

Tuesday, November 12, 2002

Jólablogg

Jólasveinarnir hennar Grýlu eru komnir með símanúmer svo sælgætissvelt ungviðið geti haft samband við þá í jólaösinni í Desember. Ekki koma foreldrarnir, uppþembdir af hlaðborðssetum og illa haldnir af glöggdrykkju, til með að troða namminu ofan í krakkana og því nauðsynlegt að þau hafi þetta markúsarnet.

Ég get nú ekki tekið kreditið fyrir að hafa fundið þennan djöful, sá þetta á Fréttunum.
Helv. ESB

Já, það er ekkert að þessu Evrópusambandi.

Maður hefði nú haldið að fyrst báknið er að standa í þessari stækkun allri að það sæi sóma sinn í því að vera ekki að rukka smáþjóðir lengst norður í Ballarhafi um kostnaðinn. Ég var nú aldrei á því að við ættum að ganga í sambandið en ef þeir ætla að haga sér svona finnst mér alveg mega athuga það að segja upp EES samingnum.
Frægð og frami!!!

Þessi maður kann greinilega gott að meta þegar kemur að grímubúningum! Við Ævar vinur mættum sem Tubbs og Edward úr League of Gentlemen og það hefur fallið Birni í geð, enda hann augsýnilega yfir meðaljóni í greind og andlegu atgervi.

Ég verð samt að viðurkenna að ég man ekki eftir Clockwork Orange búningnum hans, en bendi á, mér til málsbóta, að ég var, þegar til Jóhönnu var komið, orðinn sauðdrukkinn. Apríkósusnappsinn sem við fengum í verðlaun fyrir búninginn hjálpaði heldur ekki til.

Apríkósusnapps er annars betur þekktur undir heitinu "Hland Kölska" og fæst í öllum betri áfengisverslunum

------------

Bendi lesendum (hverjir sem þeir nú ættu að vera á tveggja daga gömlum fannál) á myndina af mér hér til hægri. Áhugasamir geta sett saman slíka mynd af sjálfum sér á þessari síðu hér. Hún er þýsk en tiltölulega greint fólk (eins og Björn) ætti að geta ráðið fram úr þessu.
Skilningsleysi

Ég hreinlega næ ekki þessari síðu. Hún heitir Four Onions (fjórir laukar) en ég sé ekki betur en að þar megi sjá fjóra sveppi.

Þetta er væntanlega eitthvað meta-gjörragrín sem ég er of square til að fatta.
Bestu kvikmyndirnar

Var að renna yfir Nagportalið og sá að nú er heill haugur af bloggurum (pallurinn, síðasta orðið, skotgröfin, raskat og ferdínálinn) að setja saman lista yfir fimm bestu kvikmyndir allra tíma.

Ætla ég að reyna slíkt hið sama. Ég birti þó listann með ákveðnum fyrirvara þar sem ég veit að um leið og ég hendi þessu upp á ég eftir að muna eftir hundrað og hálfri mynd sem ætti að vera á listanum.

1. Deer Hunter
2. Harvey
3. Goodfellas
4. Fellowship Of The Ring: Extended version
5. Saving Private Ryan

Fyrir þá sem eru meira í neikvæða horninu má hér finna lista yfir hundrað verstu kvikmyndir tuttugustu aldarinnar. Súrt að Freddy Got Fingered var framleidd á nýju árþúsundi - hún er versta mynd sem ég hef séð.
X-Soffía

Var á kosningafundi Soffíu Kristínar Þórðardóttur, sem hefur tekið þá ákvörðun að sækjast eftir sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hún kom með ansi áhugaverðan punkt: Það er "ódýrara" að nauðga barni en fullorðnum einstaklingi og enn ódýrara ef þú nauðgar eigin barni en ókunnugu! Hámarksrefsing fyrir "fullorðinsnauðgun" er sextán ár, tólf ár fyrir nauðgun á barni og bara tíu ár ef þú nauðgar eigin afkvæmi!!!

Hver semur þessar reglur?

En allt þetta tal um hámarksrefsingar er náttúrlega tilgangslaust hjal meðan menn eru að sleppa með nokkurra mánaða dóma fyrir áralanga kynferðislega misnotkun á börnum. Ég, verandi ekki fylgismaður langra fangelsisdóma almennt, væri tiltölulega sáttur ef refsiramminn sem fyrir er væri nýttur. Hér fá menn ekki tíu ára dóm nema þeir hafi myrt einhvern eða séu útlendingar að flytja inn fíkniefni.

Vona að Soffía fái tækifæri til að kippa þessu í liðinn. Svo virðist sem enginn annar hafi áhuga á því.

Monday, November 11, 2002

Vandræði

Eitthvað virðist Mundi eiga í vandræðum með heimasíðuna sína. Vona að rætist úr, enda heimasíðuvandræði eitthvað það leiðinlegasta sem maður lendir í.

Googlefight er snilldarsíða þar sem maður lætur tvö leitarorð "slást". Það orð sem hefur fleiri færslur á netinu (skv. Google leitarvélinni) vinnur. Til að testa þetta lét ég Buffy slást við steinsmuguna Charmed. Úrslitin eiga ekki að koma neinum á óvart.

Afar góður pistill hjá Andra á Deiglunni í dag. Burtséð frá öllu vanhæfi hefur Úlfhildur alltaf fríkað mig út. Hún er sú kona á Íslandi sem mér finnst komast næst því að vera "living dead", nema ef vera skyldi frænka mín, sem ég mun ekki nefna hér - hún er frekar stirð í skapinu.

Síðast en ekki síst þá er ég búinn að koma fyrir svona "comment" kerfi - sem hefur fengið íslenska heitið "blaðurkerfi" - á síðunni. Með því er á auðveldan hátt hægt að blaðra um hverja færslu fyrir sig. Snilld!
Ekki byrjar það vel...

Ekki búinn að vera með blogg í einn dag og ég er strax farinn að henda inn einhverjum persónuleikaprófum. Fokkitt, mér fannst þetta próf, og sérstaklega niðurstaðan mín, bara of flott til að sleppa því.Skemmtilega kaldhæðið kommentið um frímúrarana.
Buffy aðdáendur

Ekki reita okkur Buffy nörda til reiði. Við getum verið stórhættulegir.

Buffy rúlar
Edduverðlaunin

Ég hafði nákvæmlega engan áhuga á að horfa á afhendingu Edduverðlaunanna, sem sýnd var á Ríkissjónvarpinu fyrr í kvöld, enda er ekki um annað að ræða en andlegt hóprúnk lista- og menningarelítu landsins (Ólafur Ragnar fékk líka að fljóta með, aðallega held ég til að Dorrit fengi nú tækifæri til að sýna hvað hún er nú orðin góð í íslensku).

Það er góðra gjalda vert að veita íslenskum kvikmyndagerðarmönnum einhverja viðurkenningu þegar þeir eiga það skilið en þessi míní útgáfa af Óskarnum pirrar mig ósegjanlega. Aðstandendur hátíðarinnar rembast eins og hægðatregar rjúpur við að magna upp þann litla glamúr sem fyrir er. Eru meir að segja með stílista til að kommenta á kjóla og meiköpp kvengesta. Það eina sem vantar er tveggja tíma útsending frá tröppum þjóðleikhússins til að landinn geti séð stjörnurnar labba hríðskjálfandi á rauða dreglinum inn í hús.

Eina ástæðan fyrir afhendingu verðlaunanna (fyrir utan það að gefa gjörrunum tækifæri til að detta í það saman og klappa hver öðrum á óæðri endann) er að þessi eina íslenska mynd sem eitthvað er varið í á hverju ári, og aðstandendur hennar, geti fengið broskall í kladdann. Slík smælfés eiga líklega að hjálpa til við markaðsetningu hennar á erlendri grund. Málið er náttúrlega að það er jafnspennandi að fylgjast með Edduverðlaununum og formannskosningum í Framfaraflokknum.

Sunday, November 10, 2002

Jæja,

Það hlaut að koma að því að ég, þessi athyglissækni maður, tæki til við að blogga á íslensku. Það er gaman að vera með ensku síðuna mína (sem á eftir að gera mig moldríkan og heimsfrægan) en mig langaði til að taka þátt í þessu samfélagi íslenskra bloggara sem ég heyrði talað um í Kastljósinu um daginn.

Svo er það náttúrlega heilög skylda hvers Íslendings að halda við tungumálinu. Ég les enga íslensku fyrir utan Moggan og skrifa nánast enga íslensku eftir að ég hætti á Mogganum. Þannig að ég vinn þjóðinni, og sjálfum mér, heilt með þessu framtaki. Ég held hreinlega að ég eigi heiður skilinn!