Friday, December 20, 2002

R-listinn og málefnin

Þrátt fyrir harðorða yfirlýsingu Framsóknarmanna og Vinstri-Grænna í gær, þar sem Ingibjörgu Sólrúnu eru settir þeir afarkostir að hætta annað hvort við framboð fyrir Samfylkinguna eða segja af sér sem borgarstjóri, halda þeir hinir sömu því fram að samstarf þríflokkanna geti haldið áfram enda sé það "byggt á málefnum".

Kjaftæði.

Persóna Ingibjargar er límið sem heldur þessu húmbúkki saman. Hún viðurkenndi það sjálf í kosningabaráttunni í vor að hún hefði persónulega meira fylgi en R-listinn, og má ætla að vera hennar á listanum hafi haft áhrif á fjölda kjósenda. A.m.k. má færa fyrir því rök að R-listinn hefði ekki unnið án Ingibjargar. Þess fyrir utan sé ég ekki hver ætti að taka við af henni, verði henni bolað úr borgarstjórastólnum - Alfreð, Árni Þór, Dagur? Ekki möguleiki.

Annað hvort hættir hún við framboð, bjargar R-listanum og fremur pólitískt sjálfsmorð (ekki líklegt) - Framsókn og VG lúffa og láta þetta yfir sig ganga (enn ólíklegra) eða henni verður sparkað, R-listinn springur og Framsóknarmenn mynda nýjan meirihluta með Sjálfstæðismönnum. Björn mun ekki hafa unnið borgina, en hann mun fá borgarstjórastólinn á silfurfati. Verst er að Alfreð myndi líklega verða forseti bæjarstjórnar.
---

Trent Lott er búinn að segja af sér sem leiðtogi Repúplikana vegna ósmekklegra ummæla sem hann lét frá sér fara á dögunum og óþarft er að endurtaka hér. Nú velta menn því fyrir sér hvort hann muni einnig segja af sér þingsætinu. Ég verð að telja það afar ólíklegt þar sem meirihluti Repúplikana í Öldungadeildinni er afar naumur og segi Lott af sér mun ríkisstjóri Mississippi, heimaríkis Lotts, þá tilnefna nýjan þingmann. Ríkisstjórinn, Ronnie Musgrove, er Demókrati og því má telja öruggt að hann tilnefndi samflokksmann sinn í stað Lotts. Þetta held ég að sé of stór biti fyrir Repúplikana að kyngja og því muni Trent Lott sitja áfram sem óbreyttur þingmaður.

Thursday, December 19, 2002

Sjallagleði

Það er gaman að vera Sjálfstæðismaður í Reykjavík í dag. Við sjallarnir göngum um skælbrosandi eins og lítil börn á aðfangadagskvöld eða skríkjandi af kæti eins og hópur púka á fjósbita. Ingibjörg ætlar í framboð - Framsóknarflokkurinn og Vinstri-Grænir hoppandi æfir - samstarf R-listans hangir á bláþræði - þess krafist að Ingibjörg hætti við framboð eða segi af sér borgarstjóraembætti - Ingibjörg neitar að gera neitt slíkt - framboðið sagt svik við R-listann - Samfylkingarmenn segja öllum að "tsjilla á þessu", anda með nefinu og taka við þarmaskurkinu.

Það er yndislegt að horfa á þetta gerast. Svona er maður lítil sál, en ég get ekki annað en kæst yfir óförum vinstrimanna í borginni!

Ég hélt ekki að ég kæmist í jólaskapið fyrr en klukkan sex á aðfangadag eins og venjulega, en Ingibjörg hefur svo sannarlega tekið til við að útdeila jólagleðinni - meðal okkar Sjálfstæðismanna að minnsta kosti.

Gleðileg Jól, Ingibjörg, og takk kærlega fyrir mig.
Ingibjörg í framboð

Nú þegar ljóst er að Ingibjörg ætlar, þvert á skjön við fyrri yfirlýsingar, að fara í framboð til Alþingis er næsta víst að vefritin og pólitískir bloggarar vaði uppi á næstu dögum og skrifi málið í rot. Ég nenni því eiginlega ekki sjálfur. Mér finnst hins vegar hálf hallærislegt hvað Össur er ógurlega kátur þessa stundina. Hann gat ekki setið á sér og beðið þangað til Ingibjörg væri búin að segja R-listafólkinu frá þessu heldur óð með fréttina í fjölmiðla þar sem hann endurtók í sífellu að það hefði verið hann sem reddað hefði Ingibjörgu. Í hvert sinn sem maður er búinn að telja sjálfum sér trú um að Össur geti ekki orðið sorglegri galleónsfígúra, tekur hann upp á einhverju svona stönti. "Sjáið hvað ég er duglegur leiðtogi - ég reddaði manneskju á listann sem einhver tekur mark á, sem er meira en hægt er að segja um mig. Ég er samt foringinn, en mig er farið að renna í grun um að það sé bara grín hjá flokksbræðrum mínum!"

Sorglegur gutti.

Wednesday, December 18, 2002

LOTR test

EomerEomer

If I were a character in The Lord of the Rings, I would be Eomer, Man of Rohan, heir to the throne, nephew of Theoden and brother of Eowyn.

In the movie, I am played by Karl Urban.
Who would you be?
Zovakware Lord of the Rings Test
with Perseus Web Survey Software---
Tiltölulega sáttur við útkomuna, þótt mér finnist prófið fullstutt. Éomer er með flottustu karakterum LOTR bókanna, ekki eins dramatískur og Aragorn en samt sem áður "a veritable ass-kicking machine".
Pirringur

Ekki það að ég hafi neitt persónulegt á móti "Siggu Beib", en þessar bleiku snjóflögur gera mann brjálaðan horfi maður á þær til lengdar.

Sigga, taktu þær af - mín vegna!
Bókajólin

Svansson sér eitthvað athugavert við menningarpistil Múrsins, þar sem sölu stórmarkaða á metsölubókum er hallmælt. Það er náttúrlega spurning í sjálfu sér hvort umræddar bækur fáist í stórmörkuðum vegna þess að þær eru metsölubækur eða hvort þær eru metsölubækur vegna þess að þær eru seldar í stórmörkuðum. Þessari spurningu nenni ég hins vegar ekki að reyna að svara.

Katrín Jakobsdóttir, höfundur Múrpistilsins, segist hafa af því áhyggjur að með þessu séu stórmarkaðirnir að hafa af "hefðbundnum" bóksölum töluverða verslun, enda hafa þeir oftast efni á að bjóða bækurnar á lægra verði en Mál og menning eða Eymundsson. Hún hefur væntanlega gaman af því, eins og ég, að rölta um bókaverslun, blaða í bókum og tímaritum og gleyma sér í literatúrnum og þekkingunni. Mér þætti það vissulega miður ef MM og Eymundsson hyrfu af sjónarsviðinu - ekki það að ég hafi af því nokkrar áhyggjur - en „Þetta er það sem fólkið vill", eins og Katrín kemst að orði - að vísu fyrir hönd okkar frjálshyggjuguttanna, og það er rétt. Fólk kaupir það sem það vill kaupa. Hafi fólk áhuga á klassískum bókmenntum er hægt að kaupa kiljur á nokkra hundraðkalla með verkum helstu risa vestrænna bókmennta (í hillu vinstra megin þegar komið er upp á efstu hæðina í Eymundsson). Vilji fólk hins vegar lesa um tilhugalíf Jóns Baldvins sé ég ekkert að því að það fái skrudduna á sem lægstu verði, hvort sem bókin er keypt í Bónus eða Bókabúð Lárusar Blöndals. Ekki geri ég mér grein fyrir því hvað Katrín vill að gert verði til að rétta hlut bókaverslana - varla leggur hún það til að gefin verði út bóksöluleyfi og bóksala verði bönnum öðrum en leyfishöfum?

Hvað varðar framboð á bókum, sérstaklega bókum sem ekki höfða til meirihlutans, þá hefur það aldrei verið meira. Ég hef frekar einmanalegt áhugamál, sem er stríðssaga, og það getur verið erfitt að finna góðar bækur um efnið í íslenskum bókaverslunum - þar verður maður að sætta sig við endalausar ævisögur nasískra forkólfa. Til allrar hamingju er ég ekki upp á þær kominn með mín bókakaup. Amazon, hvort sem er .com eða .co.uk, svalar lestrarþorsta mínum fullkomlega. Ég óska þess innilega að ég muni alltaf geta gengið inn í MM, flett í bókum og fengið mér kaffibolla, en himnarnir koma ekki til með að hrynja í mínum persónulega alheimi fari búðin á hausinn.
Stórmerkilegur andskoti!

Ég var í gær að reyna að muna nafn á stórskemmtilegri barnabók sem ég las þegar ég var aðeins minni og magurri. Ég mundi ekkert hvað hún hét eða hver hafði ritað hana, en mundi að í henni átti söguhetjan að leysa þrautir - hve margar hafði ég ekki hugmynd um - svo sem að takast á við handsprengjueplatré og blöðrunefjafaraldur. Svo var ég að renna yfir bloggin og rakst þá á þessa getraun hjá honum Ármanni. Þar kemur fram að bókin er eftir Jan Terlouw og heitir Barist til sigurs. Ég get lítið hjálpað Ármanni með getraunina, en ég veit að bókin er til í héraðsbókasafninu í Mosfellsbæ, og þar er hægt að nálgast svörin. Mikið ógurlega eru þetta óspennandi verðlaun hjá honum samt.
---

Svansson skrifar ágætan póst um mögulegt þriðja framboð kommúnista í næstu kosningum til Stúdentaráðs. Ég get ekki sagt að það kæmi mér mikið á óvart, þótt maður hafi kannski ekki búist við því. Ég þekki fólk sem neitaði að kjósa Röskvu í kosningum vegna þess hversu hægrisinnuð hún var og ímynda ég mér að þrátt fyrir að umræddir einstaklingar séu útskrifaðir leynist töluvert margir skoðanabræður þeirra í undarlegustu deildum háskólans. Nú verður ekki horfið framhjá þeirri staðreynd að þrátt fyrir að Stúdentaráð vinni mikið og þarft starf í þágu stúdenta er stúdentapólitík einnig mikilvægt æfingasvæði fyrir atvinnustjórnmálamenn framtíðarinnar. Það er nú svo að Röskva, sem áður var kosningabandalag ungs Alþýðubandalagsfólks og ungra Alþýðuflokksmanna hefur, frá stofnun þess flokks, bundist Samfylkingunni æ traustari böndum. Heyrir það til undantekninga að Röskvufólk taki til starfa í öðrum flokkum eftir útskrift úr Háskólanum.

Það er skiljanlegt að þeir, sem undir öðrum kringumstæðum myndu vilja kjósa VG-framboð, vilji ekki greiða Vöku atkvæði sitt, eða veita henni brautargengi með því að grafa undan Röskvunni. Þeir hljóta samt sem áður að velta því fyrir sér hverju það skili fyrir þeirra flokk og hugsjónir að halda uppi útungunarstöð fyrir ungt samfylkingarfólk í stað þess að koma á fót eigin stjórnmálaafli í Háskólanum. Þetta er í raun bara spurning um hvort sé verra - að færa Vöku sigurinn á silfurfati eða halda uppi félagi ungra krata í Háskólanum.

Og ég verð nú einnig að láta það fylgja með að gráturinn verður heldur lítill á mínu heimili ef af verður og Vaka fær að "lorda það yfir" tveimur litlum vinstriframboðum, líkt og gerðist þegar Röskva tróð Vöku og Haka undir skítugum skónum.
---

Smávegis Trent Lott gleði í lokin.

Tuesday, December 17, 2002

Úr dvala

Það er allt að gerast í herbúðum Bjarna (mér) núna. Ég er kominn á nagportalið undir heitinu "Bersi" og er því ekki lengur sá hokurkarl sem ég hef verið hingað til. Takk kærlega fyrir Bjarni (hinn).

Ég er búinn í prófum - kláraði á laugardag - sem útskýrir að einhverju leyti fjarveru mína, enda sit ég ekki lengur daginn út og daginn inn við skrifborðið. Núna er ég hins vegar í hlutverki heimilistíkurinnar og þríf, skrúbba og skúra alla fleti í húsinu. Það hefur minnkað til muna tækifæri til bloggs, en úr því ætti að rætast þegar fram líða stundir. Ég er í augnablikinu að þrífa bókahillurnar á neðri hæðinni, en það er ekki eins leiðinlegt og ætla mætti. Þarna fær obsessive-compulsive gaurinn í mér að dafna, enda er ég að skipuleggja bókasafnið eftir höfundum, efni og stærð bókanna. Geðveikt stuð.

Friday, December 13, 2002

Yndislegur punktur

Doddeh kemur með frábæran punkt á blogginu í kvöld. Á plastpokum ÁTVR (Áfengis- og Tóbaksverslun Ríkisins) eru áfengisauglýsingar - en þær eiga jú að vera bannaðar! Svo er til fólk sem heldur því fram að þetta auglýsingabann sé ekki rugl!
Enn um Thurmondgrein Frelsis.is

Ég er búinn að vera að velta fyrir mér öllu mistakahavaríinu í kringum Thurmondgrein Ágústs Flygenrings, sem birtist á Frelsi.is þann fimmta þessa mánaðar. Eru það tvö meginatriði sem helst hafa verið að trufla mig í próflestrinum.

Í fyrsta lagi finnst mér merkilegt hve illa hefur verið farið með upprunalegu greinina hans Ágústs, en flestar þær málsgreinar sem töpuðust voru inni í miðri grein. Maður ætti auðveldar með að skilja það ef mistökin lýstu sér í að sneitt hefði verið af upphafi eða endi greinarinnar. Ég á í raun afar bágt með að skilja hvernig þetta hefur átt sér stað, en vafalaust er um að ræða einhver tæknileg atriði sem ég ber ekki skynbragð á.

Í annan stað verð ég að gagnrýna hvernig að málum er staðið varðandi leiðréttingar á Frelsi.is. Deiglan hefur það t.d. fyrir reglu að pistlahöfundum er heimilt að leiðrétta stafsetningar- og málfarsvillur í pistlum sínum, en efnislega standa pistlarnir óbreyttir. Ef alvarlegar athugasemdir eru gerðar við efni pistla er sett inn athugasemd neðan við pistilinn, eins og sjá má á þessum pistli hér. Eins og málin standa núna er ómögulegt að sjá hvað það var sem mér fannst athugavert við pistil Ágústs og virðast athugasemdir mínar kjánalegar þegar pistillinn er skoðaður eins og hann er núna. Það er alvarlegt mál ef ekki er hægt að treysta því að pistlar vefrits haldist óbreyttir, enda fer heimildagildi þeirra þá fyrir lítið.

Mælist ég til þess við þá Frelsismenn að þeir taki að minnsta kosti fram á síðunni hvaða málsgreinum var bætt inn í og hverjum var breytt.
Siðferði karlmanna

Rakst á þessa snilldarsíðu þar sem farið er yfir alls konar siðferðileg boð og bönn sem gilda í samskiptum karlmanna í millum. Verst hvað nafnið á léninu er væmið.

Einn góður punktur: "When stumbling upon other guys watching a sports event, you may always ask the score of the game in progress, but you may never ask who’s playing."

Annar: "If a man’s zipper is down, that’s his problem --- you didn’t see nothin’."
Salvör og siðferðið

Langar að benda á mjög svo áhugaverðan pistil Salvarar um siðferði í Bloggheimum. Þar veltir hún upp þeirri spurningu hvort nauðsyn sé á setningu siðareglna fyrir bloggara. Ég er ekki á því að á blogginu eigi að gilda aðrar eða öðruvísi siðareglur en almennt í mannlegum samskiptum. Ég tel að þetta sé bara spurning um að sýna öðru fólki tilhlýðilega kurteisi og virðingu og haga sér eins og siðaður maður.

Maður á að minnsta kosti að reyna...
Ágúst og Strom

Mistök ollu því að pistill Ágústs Flygenrings um hinn háaldraða Öldungadeildarþingmann Strom Thurmond birtist í töluvert styttri útgáfu en Ágúst hafði ætlað. Í pistlinum sem ég las, og skrifaði um, var nánast ekkert minnst á skuggalega fortíð Thurmonds - sérstaklega harða baráttu hans gegn mannréttindum svartra í Bandaríkjunum og afnámi aðskilnaðar kynþáttanna í suðurríkjunum.

Ágúst hefur nú útskýrt hvernig á þessu brottfalli stóð og hefur bætt inn í pistilinn hinum týndu málsgreinum. Þá bendir hann á ágæta Lexington-grein The Economist um skrögginn.

Svona mistök geta að sjálfsögðu alltaf átt sér stað, en ég held að þau hafi sjaldan verið jafn óheppileg og í þetta skiptið. Mælist ég til þess, Ágústs vegna, að hann tékki af öll sín skrif á netinu eftir að þau birtast til að athuga hvort ekki séu þau eins og þau eiga að vera.

Thursday, December 12, 2002

Er glæpur að vera af pólskum ættum?

Mér finnst merkilegt hvað þeir sem gagnrýna skrif Pawels Bartozseks á Deiglunni þurfa alltaf að benda á að hann sé nú ekki borinn og barnfæddur hér á Íslandi. Hr. Muzak kallar hann Deigluslavann, Sverrir Jakobsson sá ástæðu til að líkja honum við pólska einræðisherrann Jaruszelski og Pallurinn sá einnig ástæðu til að draga upp þjóðerni Pawels og hnýtti því við að Pawel væri ekki aðeins pólskur heldur Rússahatari í kaupbæti (það er væntanlega verra en að vera Pólverjahatari, eða hvað?). Hvað segir þetta manni um innræti þeirra er skrifa?
---

Svansson svarar ósmekklegum skrifum Betu Rokks á málefnalegan hátt, eins og hans er von og vísa.

Styttist í Brósa

Það styttist óðum í heimkomu litla bróðurs og Bjarni er farinn að hlakka mikið til að sjá gaurinn aftur. Ég vona bara að hann setjist ekki að úti í Bandaríkjunum með einhverri flatbytnu og eignist með henni haug af litlum flatbotna könum. Annars skilst mér á honum að stærstur hluti nemenda U of M sé annaðhvort indverskur eða kínverskur þannig að sú hætta er líka fyrir hendi að hann flytjist til Austur-Asíu, og finnst mér það öllu verra. Það er nógu andskoti dýrt að fljúga til Amríku - hann myndi setja familíuna á hausinn flyttist hann til Kína eða Indlands.
---

Er búinn að ljúka við LOTR í milljónasta skipti og hefur snilldarverkið A History of the Art of War In the Middle Ages eftir Charles Oman tekið við sem náttborðsbókin hans Bjarna. Þetta tveggja binda verk er það ítarlegasta og vandaðasta sem ég hef rekist á um efnið og hefur það fullkomlega staðist tímans tönn, en það kom fyrst út árið 1924. Næst á dagskrá eru svo tvær bækur um sögu Austrómverska keisaradæmisins, en þær eiga að vera á leiðinni ásamt jólagjöfunum handa Ragnari.
Buffið

Ekki er langt síðan ég sagði að skíturinn sem gengið hefur yfir Betu Rokk á kommentakerfinu hennar gengi fram af mér og að hún ætti þetta ekki skilið. Ég geri mér nú fulla grein fyrir því að ég hef haft rangt fyrir mér í því efni og dreg því ummælin til baka. Það er nauðsynlegt að geta viðurkennt mistök og beðist afsökunar á þeim.

Beta hefur kvartað sáran yfir því hvernig Sigurjón Kjartansson hefur komið fram við hana, kvartað yfir því hvað fólk er nú vont við hana á kommentakerfinu og kvabbað yfir hinu og þessu. Færslan hennar um Svansson sýnir það hins vegar að hún er litlu skárri en Ibsen og hinir njólarnir sem skrifa á kommentin hennar. Hún skrifar svona hluti að sjálfsögðu ekki vegna þess að henni sé eitthvað illa við þá sem fyrir skotunum verða - ég held að hún sé ófær um að setja sig í spor annarra eða að gera sér grein fyrir afleiðingum gjörða sinna. Hún gerir þetta eingöngu til að verða sér úti um enn meiri athygli og umtal, enda virðist hún byggja sjálfsmat sitt á því hve margir tali um hana í það og það skiptið. Ég held því að Svansson hafi heldur dregið úr þegar hann ýjaði að því að Betan væri athyglissækin.

Vegna þess að tilgangur aurmoksturs Betu er að fá athygli velti ég því lengi fyrir mér hvort ég ætti að skrifa um þetta. Ég gat hins vegar ekki setið á mér. Verst þykir mér þó að hafa þurft að linka á Buffbloggið - því með því er ég að spila upp í hendurnar á Betu.

Ég get þó tekið undir það með Bjarna að það er ekkert að því að elska sjálfan sig líkamlega. Ég stunda það töluvert sjálfur, enda ekki boðið upp á annað á mínu heimili.
Trent Lott

Eins og flestir ættu að vita skaut Trent Lott, leiðtogi Repúplikana í bandarísku öldungadeildinni, sig í báðar lappirnar um daginn þegar hann sagði að vandamál bandarísku þjóðarinnar mætti rekja til þess að Strom Thurmond, sem vildi áframhaldandi aðskilnað kynþátta, var ekki kosinn forseti árið 1948. Hérna eru linkar á nokkra sniðuga teiknara sem tjá sig um málið á sinn sérstaka hátt.

- Ann Telnaes -
- Stuart Carlson -
- Bill DeOre -

Ég þarf væntanlega að taka linkana út eftir tvo-þrjá daga, þar sem síðurnar sem geyma myndirnar hafa ekki arkhívur. Trent Lott er hálfviti.
Prófin að ná tökum á manni

Þegar maður er farinn að stinga fólk í magann, skera það á háls og skjóta manneskjur vinstri-hægri í draumum sínum - nótt eftir nótt - er það væntanlega merki um að maður sé ekki alveg að höndla þessi próf öll sömul. Eða þá að maður sitji uppi með eitthvað rosalegt hlass af innbyrgðri reiði sem ekki fær útrás nema á nóttinni. Með þetta í huga hef ég tekið þá ákvörðun að stefna ekki lífum vina minna í hættu að óþörfu og mun því ekki fara út fyrir hússins dyr fyrr en eftir jól. Fjölskyldan verður hins vegar bara að treysta á Guð og gæfuna og vona það besta.

Ég tek hins vegar enga ábyrgð á því hvað gerist taki ég upp á því að ganga í svefni.
---

Nýjasti SouthPark þátturinn er sá besti hingað til - ég hef sjaldan hlegið jafnmikið og samfleytt að einum þætti, nema ef vera skyldi að "Cartman's Silly Hatecrime", sem var tær snilld.
---

Ég er búinn að panta jólagjöfina hans Ragnars bróður míns frá Amazon og vona bara að hún komist heim fyrir jól. Þar sem Ragnar er líklegur til að lesa þetta mun ég ekki ljóstra upp um innihald pakkans. Ef ég fæ hins vegar ekki jafnflotta og jafndýra gjöf frá honum mun ég taka gjöfina hans eignarnámi! Ég ætla sko ekki að koma út í tapi þessi jól!

Það er nefnilega hinn sanni andi jólanna.

Wednesday, December 11, 2002

Tilgangur lífsins

Who says that God doesn't have a plan for everybody?

Svo hefði ég ekkert á móti því að fá eina svona í jólagjöf.

Það er aldeilis að maður er eitthvað bitur í dag. Ég held að þetta sé backlash eftir alla væmnina sem lekið hefur út öll göt á mér undanfarið, með smá blandi af prófleiða til að gera skapið extra-súrt. Það er nokkuð öruggt merki um að prófin séu að ná heljartaki á manni þegar maður sefur ekki án þess að poppa einhverjar pillur.

Annars var það frekar skondið á sýningunni í gær að ekki aðeins var myndin sýnd án hlés heldur var öllum hurðum lokað eftir að myndin byrjaði þannig að ekki var nokkur leið fyrir fólk að komast á tojarann. Myndin er rétt tæplega þrír tímar (179 mín) og var, eins og gefur að skilja, fjöldi fólks sem skalf og titraði þegar úr salnum var hökt, svo mikill var sprengurinn. Ég hafði hins vegar vit á því að skreppa á lettið rétt áður en myndin hófst og var því ekki í hræðilegu ástandi að henni lokinni.
Ógó

Vemmilegasta íslenska bloggið?
LOTR

Sá soldið skemmtilega mynd í gær. Hún kallast Lord Of The Rings: The Two Towers og er annar hluti í LOTR þrenningunni, sem einhverjir ættu að kannast við. Tilgangurinn með þessum skrifum hér er náttúrlega að geta sagt Liggaliggalái við umheiminn þar sem meir að segja (hinir) nördarnir sem héngu fyrir utan Nexus heila nótt til að næla sér í miða sjá myndina ekki fyrr en á morgun. HAHA!

Annars er myndin síst verri en sú fyrsta. Ég á samt eftir að taka suma hluti í sátt, enda er ég soddan Tolkiennörd að ég vil helst ekki sjá neinar breytingar á sögunni, nema nauðsynlegar séu. Ég get náttúrlega ekki sagt það hér hvað það var sem fór í pirrurnar á mér vegna þess að ég vil ekki skemma myndina fyrir þeim sem ekki hafa séð hana.

That's all - ekkert að gerast hjá Bjarna í dag.

Tuesday, December 10, 2002

Hilma hætt?

Er Hilma alveg hætt að blogga? Ég vona að svo sé ekki enda stúlkan sú afbragðs penni og ætíð gaman að lesa það sem hún skrifar. Ég vona einnig að umræðan um linka og hvenær má og ekki má linka hafi ekki orðið þess valdandi að Hilma hafi dregið sig í hlé.

Svo er náttúrlega hugsanlegt að ákvörðunin um að hætta sé þessu máli alls ótengd og að hún sé hreinlega orðin leið á þessu - ekki hef ég hugmynd um það, en forvitnin vill endilega fá svar!

Fjandans forvitni að skipta sér endalaust af hlutunum!
Fyrirmyndarforeldrar

Mikið er ég nú heppinn með foreldra. Ekki nóg með að þau leyfi háöldruðum syni sínum að búa endurgjaldslaust heima hjá sér, heldur eru þau tillitssemin holdi klædd þegar sá hinn sami er í prófum. Ég hef undanfarið átt erfitt með svefn, nokkuð sem hrjáir mig vanalega í prófum, og móðir mín gerði sér lítið fyrir seint á sunnudagskvöld, keyrði upp í apótek og reddaði fyrir mig einhverjum "náttúrulegum" svefnpillum sem svona líka svínvirkuðu.

Maður á það til að nöldra og kvabba endalaust yfir því sem engu máli skiptir í stað þess að þakka Almættinu fyrir það sem gott er í lífinu og tilverunni. Þegar manni verður hugsað til allra þeirra sem aðeins eiga eitt foreldri, eða jafnvel ekkert, hafa verið fórnarlömb ofbeldis foreldra (andlegs eða líkamlegs) eða eiga foreldra eða önnur ættmenni sem háð eru áfengi eða öðrum vímuefnum rennur það upp fyrir manni hvað maður á það nú gott. Að hafa verið alinn upp af tveimur yndislegum manneskjum, umvafinn ást og umhyggju, alinn þannig upp að maður eigi að treysta á sjálfan sig og að maður sé þess trausts verður - það er ómetanlegt.

Ég held svei mér þá að ég sé að verða "soft" á mínum efri árum!
Tilvitnun dagsins

"Enda er málstaðurinn yfirleitt ekki góður þegar farið er ráðast á persónur og einstaklinga."
- Sverrir Jakobsson.

Stromviðri

Þórlindur Kjartansson skrifar afbragðsgóðan Deiglupistil um hundrað ára afmæli Strom Thurmonds, sem lætur nú af embætti öldungardeildarþingmanns á bandaríska þinginu eftir 48 ára samfellda setu. Þórlindur rifjar upp ákveðna ógeðfellda þætti í pólitískum ferli Thurmonds, t.d. baráttu hans gegn kynþáttaaðskilnaði í suðurríkjum Bandaríkjanna og málþóf sem hann stóð fyrir til að tefja fyrir samþykkt laga sem tryggja áttu mannréttindi blökkumanna í Bandaríkjunum. Það sem mig langar hins vegar að gera er, eins og Svansson gerir á sinni síðu, að benda á þann mun sem er á grein Þórlinds og Frelsisgreinar Ágústs Flygenrings um sama efni, sem birtist þann fimmta þessa mánaðar á vefsíðu Heimdallar.

Við getum reynt að horfa framhjá skrækjandi staðreynda- og reiknivillum Ágústs - Strom er, að sögn Ágústs, ýmist að verða 100 eða 98 ára í ár, frá árinu 1996 eru víst aðeins liðin fimm ár, og heil málsgrein í pistli Ágústs virðist hafa verið skrifuð fyrir tveimur árum miðað við ártöl og aðrar tölulegar staðreyndir (Strom sagður hafa setið 46 ár á þinginu en ekki 48, og er sagður, eins og ég benti á áður, einungis vera 98 ára gamall). Það sem helst vekur athygli við grein Ágústs er hins vegar það sem hann kýs að þegja um. Greinin segir Thurmond "skrautlegan karakter" og farið yfir fyrstu skref hans í pólitík og það dregið upp að honum hafi tekist að láta skjóta sig í seinna stríði. Ágúst talar um það hvað íbúar heimabæjar og -fylkis Thurmonds séu nú ánægðir með manninn og svo er það nefnt, svona eins og í framhjáhlaupi að hann hafi jú eitthvað verið andsnúinn réttindabaráttu svartra - en það sé allt í lagi vegna þess að um fimmtungur svartra kjósenda greiði honum samt atkvæði sitt. Hin áttatíu prósentin eru jú bara svo fjandi langdrægnir djöflar.

Lof af þessu tagi um mjög svo vafasama karaktera er Sjálfstæðisflokknum lítt til framdráttar. Ég, sem ungur sjálfstæðismaður, get ekki tekið því þegjandi að málgagn flokks míns og félags sé notað á þennan hátt. Hægristefnan snýst um annað og meira en baráttu fyrir frelsi í viðskiptum. Hún snýst einnig virðingu fyrir mannréttindum, þar á meðal þá trú að ekki eigi að gera upp á milli einstaklinga á grundvelli kynþátta, kynferðis eða trúarbragða. Grein þar sem maður eins og Strom Thurmond er sagður vera svona "gaur" sem var bara soldið á móti svörtum - í denn - en það sé allt í lagi vegna þess hversu fjallgamall hann sé, er ekki að gera Sjálfstæðisflokknum eða hægristefnunni almennt neitt gagn.

Þeir frelsisjólasveinar verða að gera sér grein fyrir því að það er ekki allt gott sem frá Repúplikönum kemur og menn gerast ekki sjálfkrafa einhverjir dýrlingar þótt þeir gangi í þann flokk í fússi yfir "mannréttindamaníunni" í Demókrötum.

Monday, December 09, 2002

Tweaking

Eftir að hafa fengið ábendingu um að erfitt væri að sjá linka á síðunni minni lagfærði ég hana eilítið þannig að nú eru linkar í bloggtexta undirstrikaðir. Þetta var soldið hálfvitalegt hjá mér fyrir breytingu - ég átti sjálfur stundum erfitt með að finna linka sem ég vissi að áttu að vera á síðunni! Slíkt veit aldrei á gott.

Annars virðast þessar breytingar hafa haft þann leiða eftirmála að núna er lítið strik yfir fyrsta staf í hverri bloggfærslu. Getur einhver séð hvernig á því stendur? Ég get ekki séð það í source-kóðanum og sé það heldur ekki í template-inu. Endalaus vinna við þessar heimasíður - en það er líka hluti af því sem gerir þetta svo skemmtilegt.
Linkar og lögfræðin

Hér eru nokkrar greinar um bann við því að linka á síður, sérstaklega það sem menn kalla "deep link" þar sem linkað er á undirsíður en ekki forsíður. Mörg fyrirtæki vilja banna deep linking vegna þess að með því verða þau af töluverðum auglýsingatekjum - en auglýsingarnar eru jú flestar á forsíðunni. Nú hefur lítið verið skrifað um "linkun" í íslensk lögfræðirit og mun ég því aðallega nýta mér bandarískar heimildir. Það er e.t.v. hvort eð er ekki svo fjarri lagi, þar sem Bandaríkin hafa alla tíð verið leiðandi í netnotkun og þróun internetréttar.

David Sorkin, prófessor við Chicagoháskóla rekur heimasíðuna dontlink.com þar sem hann gerir í því að linka á síður fyrirtækja sem sett hafa bann við slíku athæfi. Hann spyr aldrei leyfis og "deep linkar" iðullega. Tilgangurinn með heimasíðunni er að vekja athygli á málefninu, enda getur slíkt linkabann verið stórhættulegt lýðræðislegri og fræðilegri umræðu á internetinu.

Í þessari grein úr Wired er fjallað um mál Ticketmaster fyrirtækisins gegn samkeppnisaðilanum Tickets.com. Tickets.com hafði "deep linkað" á síður Ticketmaster og fór Ticketmaster í mál við Tickets.com til að þvinga þá til að láta af því. Dómarinn í málinu sagði: "Hyperlinking does not itself involve a violation of the Copyright Act [...] There is no deception in what is happening. This is analogous to using a library's card index to get reference to particular items, albeit faster and more efficiently."

Það er hins vegar rétt að í sumum tilfellum hefur verið fallist á slíkt bann, og hafa dómar þess efnis fallið í Hollandi, Skotlandi og Bandaríkjunum. Í Hollandi var fréttasíða sem linkaði á stakar fréttir á vefsíðum annarra fjölmiðla þvinguð til að láta af því eftir að hafa tapað dómsmáli og svipuð varð niðurstaðan í dönsku dómsmáli.

Már og félagar á rss.molum áttu í svipuðum deilum við Moggann á sínum tíma og má hér lesa bréf þeirra til forráðamanna Moggans.

Ég er á þeirri skoðun, eins og ég hef áður sagt, að slíkt linkbann getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir lýðræðislega umræðu á vefnum. Það kann mörgum að þykja það lítið mál þótt Starbucks kaffiveldið banni öðrum síðum að linka til sín, en slíkt bann getur orðið fordæmi fyrir önnur og afdrifaríkari bönn. Það er ákveðin klisja að maður tapar yfirleitt ekki frelsinu öllu í einu heldur er það haft af manni í litlum bitum, sem hver um sig virðist saklaus og jafnvel eðlilegt að láta af hendi. Það er hins vegar of seint að ætla að gera eitthvað í málinu þegar maður situr eftir tómhentur og rúinn frelsinu til að mótmæla.

Dramatíkin að gera allt vitlaust hjá Bjarna!
Moldviðri í kringum Hilmu

Smávegis moldviðri hefur skapast í kringum bloggpóst nokkurn sem Hilma ritaði fyrr í dag (eða í gær, man það ekki) um kynni hennar af Davíð Oddssyni. Deiglan linkaði á umræddan pistil og var það Hilmu lítt að skapi. Hún kvartaði yfir þessu á síðunni sinni og kippti upprunalega póstinum út. Ég hefði e.t.v. brugðist öðru vísi við hefði Múrinn linkað á mína síðu, enda getur verið að ég hafi meira gaman af kvabbi og rifrildum en Hilma.

Hins vegar þykir mér Ása hafa farið hamförum í umræðunni og lítið farið fyrir málefnalegum rökum eða lagakunnáttu á þeim bænum. Hún slengir fram fullyrðingum um að á Hilmu hafi verið brotinn höfundarréttur og réttur til friðhelgi einkalífs. Þessar fullyrðingar eiga ekki við nein rök að styðjast og held ég að Ása ætti að leggja harðar að sér ætli hún að standa sig í lögfræðinni. Þá get ég heldur ekki samþykkt að það hafi verið siðferðilega rangt af Deiglumönnum að linka á síðu Hilmu, og hef ég ekki lesið neitt sem Ása hefur skrifað sem styður þá fullyrðingu.

Þá virðist hún hafa farið yfir póst Svanssonar á hundavaði þar sem hún virðist halda að hann hafi fullyrt að internetið væri lagalaust samfélag þar sem allt væri leyfilegt. Hann var einfaldlega að benda á að á internetinu þyrfti maður að gæta orða sinna og láta ekki frá sér hluti sem maður vill ekki að hafðir séu eftir manni. Það að skrifa á internetið er ekkert frábrugðið því að skrifa grein í dagblað og ætti maður því ekki að láta það frá sér á internetinu sem maður er ekki tilbúinn að standa við.

Hilma segist sjálf gera sér grein fyrir því að Deiglumenn hafi ekki brotið á henni nein lög, en þeir hefðu átt að spyrja hana leyfis áður en þeir linkuðu á síðuna hennar. Það má vel vera að það sé rétt hjá henni, en það er jú þannig að almennt er ekki beðið um slík leyfi áður en linkað er á síður á internetinu og held ég að umræðan yrði töluvert leiðinlegri ef sú væri raunin.
Enn um helvítis Sitemeter

Sitemeter virðist vera kominn í lag - a.m.k. í bili.
---

Tommi bendir á ansi skemmtilegan Amazon.com-brandara á sinni heimasíðu. Gaman hvað tölvunördar, eins og þeir sem verknaðinn frömdu, geta stundum haft frábært skopskyn. Brandarinn er líka svo lúmskur - jafnvel þótt hann snúist um "Anal Sex" - sem er líklega ó-lúmskasta aktívítet ever.
---

Yfirleitt þykja mér langar bloggfærslur hrútleiðinlegar, aðallega vegna þess að oft eru viðkomandi bloggarar varla skrifandi á íslenska tungu. Hilma er ánægjuleg undantekning frá þessu og rennir maður sér ljúflega í gegnum heilu blaðsíðurnar af efni hjá henni. Hún mætti samt íhuga að setja inn greinarskil (eins og ég geri) - það auðveldar lesturinn töluvert. Ekki það að maður þurfi á slíkum hækjum að halda þegar kemur að ritsnilld Hilmu. Það fríkkar líka upp á textann.
---

Undanfarið hafa íbúar bloggheima fjargviðrast og farið mikinn í kjölfar tveggja greina sem birst hafa með stuttu millibili, annars vegar á kreml.is og hins vegar í Mogganum, þar sem bloggið er krufið. Þórdís skrifar áhugaverðan og yfirvegaðan póst um málið í dag.

Sunday, December 08, 2002

Sitemeter og svartnættið

Búinn að taka Sitemeter kóðann út af síðunni. Set hann inn aftur ef þeir Sitemeter-menn ná að laga það sem laga þarf. Ætli vandræðin séu eitthvað tengd 666 færslunni? Hvað hefur Björk um þetta að segja? Ber hún, eða hinn svartvængjaði yfirmaður hennar, ábyrgð á teljaravandræðum Bersa?

Framhald síðar...
Sitemeter

Helvítis Sitemeter er ástæðan fyrir því að síðan mín hleðst svona hægt. Hvað er eiginlega málið með þetta pakk? Hef ekki lennt í neinum vandræðum með hann á Stillborn Ideas og hef notað hann þar í rúmt ár. Á ég að skipta?
Pólitíkin lætur á sjá

Er það bara ég eða er politik.is lélegasta vefritið á íslenska vefnum? Gott má heita ef aðeins tveir dagar líða milli birtingar pistla og eru framsetning og efnistök þeirra síst til að hrópa húrra fyrir. Verst var þó ástandið fyrir prófkjör Samfylkingarinnar vítt og breytt um landið þar sem ekki birtist annað efni á pólitíkinni en lofgreinar (kynningargreinar, sorrí) um frambjóðendur. Ef svo heppilega vildi til að skrifað væri um eitthvað annað var það iðullega um kosti þess að ganga í búrókratíubandalagið í Evrópu. Er það furða að menn kvarti yfir málefnafæð Samfylkingarinnar þegar ungliðahreyfingin hefur ekki meira að segja en andleg fátækt pólitíkurinnar gefur til kynna?

Þegar rennt er yfir síðuna eins og hún er í dag sést að af tíu greinum fjalla tvær um það hvað ungliðar og ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkana eru nú mikilvæg. Því fer fjarri að ég sé ósammála þeim hvað þetta varðar, en ég hef ekki rekið mig á svipaðar greinar á öðrum pólitískum vefritum. Það er nú svoleiðis að þegar menn reyna hvað þeir geta að sannfæra aðra um eigið ágæti og mikilvægi eru þeir aðallega að reyna að sannfæra sjálfa sig. Og hvað segir það um styrk ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar þegar hún notar fimmtung tíma félaga sinna og plássins á heimasíðunni í að sannfæra sjálfa sig um að hún skipti einhverju máli?

Framtíðin er ekki björt og upplitið ekki djarft á ungum jafnaðarmönnum um þessar mundir. En Samfylkingunni gengur svo skínandi vel í skoðanakönnunum núna að það er líklega allt í lagi.
Loksins

Jæja, loksins komst ég inn á Bloggerinn. Svansson hefur rétt fyrir sér - Blogger er gagnslaust helvíti. Ég ætla að reyna að koma síðunni fyrir á einhverjum betri stað í jólafríinu og jafnvel reyna að nýta mér Nucleus í staðinn fyrir Blogger. Við notum Nucleus á Deiglunni og hann er ótrúlega einfaldur í notkun og býður upp á fjölda möguleika. T.d. getur maður verið með fleiri en einn ramma í gangi í einu, sbr. Flugufótinn, Deiglumolana og Deiglufréttirnar. Vona að Tommi nenni að hjálpa mér að læra að setja Nucleusinn upp.
---

Þá veit maður það - fjögurra daga pása á blogginu þýðir að maður hafi hætt að blogga. Annars hefur fólkið sem skrifar á kommentakerfið hennar Betu algerlega gengið fram af mér. Skammirnar og skíturinn sem það lætur dynja á stúlkunni eru með endemum og lái ég henni það ekki að hafa fengið nóg og tekið sér pásu.

Saturday, December 07, 2002

Þú ert alveg örugglega alki þegar...

...þú lendir í fjöldaslagsmálum við aðra öldurhússgesti um það hver eigi að borga fyrir bjórinn.

...þú, og félagar þínir í ræðuliðinu - búnir að drekka nokkra góða - berjið, sparkið í og hellið olíu yfir einn andstæðinganna og reynið svo að kveikja í honum.

...þú ert of drukkinn til að takast að kveikja í honum.

...þú drepur besta vin þinn vegna þess að hann drakk síðasta bjórinn í ísskápnum.

Öl er böl, sandur möl og kynlíf kvöl.
666

Það fer að styttast í gest númer 666.

Spennó!
Skammdegis- eða prófaþunglyndi?

Eins og alþjóð veit er skammdegið íslenska bölvaldur hinn mesti. Steypir það annars glaðlyndum landanum í biksvart hyldýpi þunglyndisins svo geð- og heimilislæknar hafa vart undan í útgáfu lyfseðla. Svo maular fólk prósakk, seról, seroxat, seróprópanól og hvað það nú heitir allt saman, þangað til Sólin lætur svo lágt að kíkja á okkur svona upp úr miðjum marsmánuði. En er sólinni virkilega um að kenna? Getur það verið að prófa- og jólastress eigi þarna meiri sök en blessuð sólin, sem sögð er elska allt? Bróðir minn, sem staddur er í USA um þessar mundir segist allavegana sakna skammdegisins - segir það ónáttúrulegt að sjá til sólar eftir hádegi í desember.

Bara að velta þessu fyrir mér...
---

Nú er það svo að ég er ekki einn þeirra sem annaðhvort hatast útí George W. Bush, Bandaríkjaforseta, eða gera grín að málbrenglun hans í tíð og ótíð, en þessi frétt hér minnti mig óþyrmilega á Nostradamus frænda.

Friday, December 06, 2002

Svansson svarar Sverri

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að Svansson hefur skrifað ágætispóst þar sem hann setur út á Múrgrát Sverris og krefur hann svara um nokkur atriði.
Halle Berry vikið úr keppni

Gylfi Steinn hefur vikið Halle Berry úr keppninni "Heitasta Bondpían", sem hann stendur nú fyrir á heimasíðu sinni, og ber því við að einn áhugasamur aðdáandi hennar hafi reynt að tryggja henni sigurinn með svindli. Þegar ummæli Gylfa frá því í fyrradag eru lesin renna hins vegar á mann tvær grímur.

Gylfi sagði orðrétt: "Hér á vefnum verður skellt á könnun um hvaða píu sé nú flottust. Eitt er samt alveg klárt að mínu viti - það er ekki grátskjóðan Halle Berry..."

Getur verið að Gylfa hafi orðið um og ó þegar hann sá að allt stefndi í sigur frk. Berry og þess vegna ákveðið að kippa henni út? Dæmi nú hver fyrir sig.
Svar við svari Sverris

Sverrir Jakobsson skrifar Múrgrein í dag (Lýðræðið aukaatriði?) sem heita á svar við ágætri grein Pawels Bartozseks (Hrun Kommúnismans) sem birtist á Deiglunni ekki alls fyrir löngu. Á Glerhússgreininni eru nokkrir vankantar sem nauðsynlegt er að svara.

Í fyrsta lagi heldur Sverrir því fram að grein Pawels sé svar við grein sem Sverrir skrifaði í nóvembermánuði. Ég tel svo ekki vera. Tilvitnun Pawels í grein Sverris er, að mínu mati, einungis notuð sem dæmi um þá skoðun sumra vinstri manna að efnahagslíf og efnahagskerfi kommúnistaríkjanna fyrrverandi hafi ekkert haft með hrun kommúnismans að gera. Þá dregur Sverrir þá ályktun að þegar Pawel talar um "róttæka vinstrimenn" sé hann að ræða undir rós um áðurnefndan Sverri og að hípótetískt dæmi Pawels um mann sem sitji að snæðingi á Hótel Borg og útskýri að hungur sé afstætt, það sé hugarástandið sem ráði hvort okkur finnist við svöng - eigi einnig við um sig. Ég get ekki séð að þessar ályktanir Sverris eigi við rök að styðjast og veltir maður því fyrir sér hvort um sé að kenna uppblásnu egói mannsins eða hvort vænissýki sé farin að hreiðra um sig í kollinum á honum.

Þá segir Sverrir í grein sinni: 'Að mati hans [Pawels] stöfuðu vandamál Austur-Evrópuríkja ekki af einræðinu sem þar ríkti heldur efnahagsstefnunni sem þar var rekin. Eins og hann orðar það: "Skortur á lýðréttindum átti auðvitað líka sinn þátt en hann var ekki aðalatriðið."'

Þetta er náttúrlega rammskakkt hjá Sverri. Allir hugsandi lesendur greinar Pawels gera sér grein fyrir því að greinin fjallar um ástæður þær er að baki hruni kommúnismans í A-Evrópu lágu (sbr. heiti greinarinnar). Pawel færir fyrir því rök að efnahagskerfi það er ríkjandi var í austantjaldsríkjunum, þ.e. sósíalískt forsjárhyggjukerfi, hafi haft meiri áhrif á það hvernig fór en óumdeilanlegur skortur á lýð- og mannréttindum sem einnig einkenndi stjórnarfar ríkjanna. Greinin Pawels fjallar einfaldlega ekki um "vandamál Austur-Evrópuríkja" heldur ástæður hruns kommúnismans. Tilvitnun Sverris í grein Pawels er tekin úr samhengi og látið líta út fyrir að Pawel, og hægrimenn almennt, hafi ekki litið á mann- og lýðréttindabrot kommúnískra valdhafa sem vandamál. Hafi Sverrir viljað svara grein Pawels eins og hún var rituð, en ekki gera honum upp skoðanir í barnalegri tilraun til að koma á hann höggi hefði hann haft tilvitnunina eilítið lengri.

Málsgreinin hljóðar í heild sinni svona: 'Það sem orsakaði hrunið var því "fyrst og fremst" einmitt hið miðstýrða markaðshagkerfi sem gat ekki tryggt fólki sama vöruúrval og í ríkjum kapítalismans. Hjá okkur voru allir bakpokar rauðir, öll tjöld gul, allar lestir brúnar og öll húsin grá. Skortur á lýðréttindum átti auðvitað líka sinn þátt en hann var ekki aðalatriðið.'

Þegar setningin er skoðuð í samhengi er augljóst að Sverrir er í grein sinni að leggja Pawel orð í munn og afskræma annars ágæta grein. Nú er það svo að Sverrir Jakobsson á að heita vel gefinn maður. Ég hef reyndar ekki orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast honum persónulega þannig að ég get ekki sjálfur fellt dóm um gáfnafar hans, en sé enga ástæðu til að draga það í efa. Þess vegna veltir maður því óneitanlega fyrir sér hvað fyrir honum vakir þegar hann gerist sekur um jafn blygðunarlaust virðingarleysi og áðurnefnd Múrgrein ber vott um.

Sverrir hefur kannski ekki farið að ráðum bróður síns í morgun.
Guffi bloggar

Þá er Guffi (eða Guðfinnur eins og við móðir hans köllum hann) byrjaður að blogga. Hann mætti samt íhuga breytingar á litavali á síðunni - ég held að liturinn sé sá hinn sami og Cartman kallar "baby green" í nýjasta þættinum.
Betlingar

Mikið ógurlega eru þessir nillar sorglegir sem híma undir húsvegg á Laugaveginum glamrandi á hljóðfæri og tennur í þeirri veiku von að einhver sjái aumur á þeim og láti nokkra tíkalla hrjóta af hendi ofan í lopahúfuna við fætur þeirra. Ekki get ég ímyndað mér að hér séu Íslendingar á ferð þar sem hver sá er þekkir Ísland og Íslendinga veit að svona "götumenning" á ekki upp á pallborðið hjá landanum. Helst er ég á því að um sé að ræða erlenda iðjuleysingja sem koma hingað og vonast til að geta borgað fyrir fæði og uppihald með því að hrauna yfir blauta og hrakta verslunareigendur úr nikkunni. Svo eru þetta ekki einusinni neinir afbragðs tónlistarmenn - sem útskýrir væntanlega af hverju þeir eru að skrönglast hérna uppi á fróni en eru ekki að meika það á götum Flórens.

Gjörrapungar.
Handbremsuhrakfarir

Katrín kemur upp um eigin stelpuskap í þessari færslu um eiginleika handbremsunnar á bílnum hennar og hvað gerist þegar keyrt er af stað án þess að taka bílinn úr handbremsu. Þetta minnir mig á það þegar við félagarnir vorum heima í Mosfellsbæ og vantaði nauðsynlega að komast í bæinn. Ég var sá eini með ökuréttindi en hafði engan bíl. Svo skemmtilega vildi til að foreldrar eins félagans voru að gæta bifreiðar fyrir vinafólk sitt og tókum við drengirnir tólið traustataki og renndum niður í bæ. Það var ekki fyrr en á leiðinni heim sem við gerðum okkur grein fyrir því að ég hafði keyrt alla leiðina niður í bæ og áleiðis heim aftur með handbremsuna á. Voru átökin slík að bremsuklossarnir brunnu af og þurfti að skipta um þá.

Það er væntanlega óþarfi að taka það fram að upp um þjófnaðinn komst.

Lesendur geta þá gert sér í hugarlund reiði foreldranna þegar við rændum bílnum í annað sinn, en þá komst upp um okkur vegna þess að sonurinn brotnaði undir stífri yfirheyrslu föður síns. Var hann leiddur í gildru þegar pabbinn spurði hann hvernig á því stæði að í lánbílnum væri ný hljóðsnælda. Drengurinn þurfti ekki meira til, fór að háskæla sextán ára gamall maðurinn og játaði allt. Það skemmtilega var að enginn okkar hafði komið með hljóðsnældu í bílinn þegar við rændum honum.

HAHAHA, þetta var nú svei mér skemmtileg saga. Í næstu færslu segi ég frá draumförum mínum og því hvað ég át í morgunmat!

Stay tuned...

Thursday, December 05, 2002

Linsusaga dauðans

Með fullri virðingu fyrir Ástu og hennar linsuhrakförum er þetta líklega óhuggulegasta linsusagan af þeim öllum. Það tók á að lesa þetta.
Menn og málefni

Sumt fólk virðist eiga í ákveðnum vandræðum með að gera skýran greinarmun á málefnum og mönnum sem þau aðhyllast. Þetta sama fólk á því í mesta basli þegar það verður þess vart að þekktur málsvari ákveðins málefnis er gagnrýndur. Það gerir sér ekki grein fyrir því að gagnrýnandinn er ekki endilega að gagnrýna málefnið sem slíkt heldur einungis málsvara þess (svo er náttúrlega hugsanlegt að gagnrýnin beinist einnig að málefninu, en látum það liggja milli hluta í þessu hýpótetíska dæmi). Verið getur að málflutningur málsvarans sé gagnrýni verður, orðalag hans eða baráttuaðferðir.

Maður getur aðhyllst einhverja stefnu, hvort sem það er stjórnmála- tónlistar- eða heimspekistefna en það þýðir ekki að allir þeir sem hana aðhyllast séu dýrlingar og yfir alla gagnrýni hafnir. Maður verður, eins og áður segir, að geta gert greinarmun á mönnum og málefnum og meta það hverju sinni hvort áðurnefnd gagnrýni a) eigi ekki rétt á sér og b) hvort gagnrýnin beinist yfirhöfuð að stefnunni/málefninu. Maður á ekki að fyrirgefa hvers konar yfirgang og frekjulæti í fólki einfaldlega vegna þess að það er sammála manni í pólitík (eða einhverjum fjandanum öðrum).

Svo er það náttúrlega líka svo að gagnrýni á málefni þarf ekki endilega að fela í sér gagnrýni á persónuna.
---

Wendy Perriam hefur unnið til verðlauna fyrir verstu kynlífslýsingu í nútímabókmenntum. Lesið þetta og sannfærist um að Wendy er vel að verðlaununum komin.
---

Ef þið eruð ekki ennþá búin að ákveða hvað gefa eigi Bjarna í jólagjöf legg ég til að þessi gimsteinn verði fyrir valinu. Hvað eru 350 dollarar á milli vina?
That does it!

Nú eru ljósin í herberginu mínu farin að flökta í ofsaveðrinu! Þetta er áreiðanlega eitthvað helvítis kommaplott um að koma í veg fyrir að ég standi mig í prófunum!
Helvítis veður

Hver ber eiginlega ábyrgð á þessu? Gerir sá hinn sami sér ekki grein fyrir því að það vilja ekki allir reykja inni hjá sér vegna þess að stínkurinn sem af því leiðir er óþolandi? Gerir hann sér ekki grein fyrir því að þegar bæði rignir og blæs eins og úr drjúpandi gati andskotans er ómögulegt að híma úti og reykja, einfaldlega vegna þess að það drepst í rettunni? Sko, ég væri alveg tilbúinn að sætta mig við annaðhvort rigningu eða rok. Ef rignir get ég hangið undir svölunum og ef blæs held ég mig til hlés undir einhverjum veggnum. Svona hamfaraveður er hins vegar engan veginn ásættanlegt! Og það er ekki eins og þetta sé stakur viðburður - nóvembermánuður var sá blautasti í manna minnum og votur fretur kölska hefur frussast yfir landann í hátt í viku núna.

Ég er farinn í kraftgallann og út að reykja.
Sverrir og málefnin

Sverrir virðist ófær um að taka þátt í málefnalegri umræðu um nokkurn skapaðan hlut. Gagnrýni Svanssonar á mjög svo barnalegan póst Sverris beindist aðallega að þeirri staðreynd að Sverrir reif þar setningu úr Deiglupistli Pawels algerlega úr samhengi af ókunnum ástæðum, sem þó væntanlega eru annarlegar - enda ekki við öðru að búast af Sverri. Sverrir kýs að svara þessari gagnrýni ekki heldur þrasar hann (tuðar jafnvel) um stjórnmálakenningar sem löngu ættu að vera dauðar drottni sínum og gefur sér að pistill Pawels sé svar við enn einni súrri Múrhleðslunni. Hefði Sverrir lesið pistil Pawels hefði hann væntanlega gert sér grein fyrir því að setningin úr Hleðslugreininni var einungis notuð til að undirstrika þann punkt að vinstrimenn nútímans neita að horfast í augu við raunveruleikann sem að baki hruni kommúnismans lágu. Það er reyndar tegundareinkenni á kommúnistum að þeir neita að horfast í augu við raunveruleikann almennt.

Það er alvarlegur karaktergalli að geta ekki viðurkennt mistök og beðist afsökunar þegar það á við. Sverrir ætti að kafa djúpt inn í sig, reyna að finna sálarskarnið sem þar ætti að vera, athuga hvort ekki leynist í því snefill af manndómi og biðja Pawel afsökunar á ummælunum.

Það er ekki að ósekju að Sverrir er kallaður önugi bróðirinn.

Wednesday, December 04, 2002

Ásta brillerar

Eins og ég hef áður sagt er það sorglegt að Ásta skuli ekki skrifa oftar en raun ber vitni. Nýjasti pósturinn hennar undirstrikar þetta, enda afar áhugaverður og málefnalegur - en málefnafæð og rætni hefur einkennt málflutning sumra í umræðunni um jafnréttismál hér á íslenska vefnum.
Kommarnir missa af punktinum

Kannski hefur Pawel hoggið of nærri sannleikanum í greininni um fall kommúnismans - allavegana virðist hún eitthvað hafa farið í pirrurnar á Sverri. Maður ættu svosum ekki að láta það koma sér á óvart að menn eins og hann taki setningar úr samhengi og noti þær í barnalegri viðleitni sinni til að koma höggi á andstæðinginn. Merkilegt að Sverrir og hans skoðanabræður skuli ekki geta viðurkennt að kenningar þær er þeir aðhyllast urðu þess valdandi að milljónir manna létu lífið og heilu kynslóðirnar lifðu í skugga ófrelsis og ógnarstjórnar. Svo standa þeir og tala af mikilli hneykslan um utanríkisstefnu Bandaríkjanna og þann mikla glæp að Talíbanastjórninni í Afganistan var komið frá völdum.

Sverrir ætti að líta sjálfum sér næst áður en hann fer að röfla um frelsi og helsi.
Joyce Meyer

Omega er án efa hallærislegasta sjónvarpsstöðin á íslenska ljósvakanum (Gítar-Gulli ber höfuð og herðar yfir aðra í hallærinu), en þó er ljósglæta í öllu frelsismyrkrinu þar á bæ - Joyce Meyer. Joyce er bæði bráðfyndin og -gáfuð og leiðist manni aldrei þegar maður er svo heppinn að kveikja á einni af predikununum hennar. Maður þarf ekki að vera kristin(n) til að kunna að meta boðskapinn, enda höfðar hún meira til almennrar skynsemi óhorfenda en blindrar trúar. Ég hef heldur aldrei gripið hana í að breiða út hatur á einhverjum þjóðfélagshópi (samkynhneigðir eru vinsælt skotmark sjónvarpspredikara), heldur fjallar hún meira um daglegt líf fólks og samband þess við nánustu vini og vandamenn og hvernig bæta má samskipti þeirra í millum.
M.C. Echer

Rakst á nokkrar myndir eftir M.C.Escher á vafrinu. Stórskemmtilegar og er oft vitnað til þeirra í bókum, sjónvarpi eða kvikmyndum.
---

Svo virðist sem Pawel Bartozsek sé að verða helsta stjarnan í Deigluliðinu. Hann er vel að titlinum kominn, enda fantagóður penni og skrifar ætíð áhugaverða pistla.
Hópnauðgun á Netinu

Vill bara vekja athygli á frábærri grein sem lesa má í Morgunblaðinu í morgun. Greinin heitir "Hópnauðgun á Netinu" og er eftir Sigríði Bríeti Smáradóttur, en í henni fjallar Sigríður um myndbirtingar af unglingstúlkum á Netinu. Oft er um að ræða myndir sem teknar eru í samkvæmum og við aðstæður sem eru þess eðlis að stúlkurnar hafa enga löngun til að af fréttist. Eins og Sigríður bendir á getur ein mynd, tekin á augnabliki þar sem viðkomandi stúlka gleymdi sér í gleðinni eða var einfaldlega óheppin, eyðilagt mannorð hennar og steypt henni í þunglyndi.

Vil ég taka undir þá beiðni Sigríðar að við Netnotendur tökum höndum saman um að dreyfa ekki slíkum myndum í gegnum tölvupóst eða á heimasíðum. Það sem fyrir okkur er virði eins hláturskipps getur valdið ungri manneskju ósegjanlegum andlegum sársauka.
---

Ég er ekki venjulega svona væminn, sérstaklega ekki á morgnana. Kannski er ég að verða veikur.

Tuesday, December 03, 2002

Jafnrétti

Er búinn að vera að renna yfir umræðuna á vefnum um jafnréttismál, en hún komst aftur á skrið þegar Jafnréttisfulltrúi Háskólans lét afar óheppileg ummæli falla um konur í verkfræðinámi. Salvör virðist hafa tekið við af Rósu og er nú merkisberi afdankaðra hugmynda um jafnrétti og hvernig því skuli náð. Í þessari færslu gagnrýnir hún Þorbjörgu Vigfúsdóttur fyrir að halda því fram að eðlismunur sé á konum og körlum - en í sömu færslu virðist hún vera þeirrar skoðunar að kjósa eigi konur einfaldlega vegna þess að þær eru kvenkyns. Kannski eru leiðslurnar í mér vitlaust tengdar en mér finnst ákveðin mótsögn felast í þessu.

Finnst konum svona umræða ekkert niðurlægjandi? Vilja metnaðarfullar konur, sem gengur vel í námi og hafa heilmikið fram að færa í stjórnmálum eða í atvinnulífinu virkilega komast áfram á kynferðinu einu? Er það eitthvað frábrugðið því að sofa sér leið á toppinn? Gera þeir, sem halda því fram að kynferði eigi að vera ráðandi í vali á stjórnmálamönnum og öðru áhrifafólki, sér ekki grein fyrir því hvað í orðum þeirra felst? Sem ungur Sjálfstæðismaður - og þar af leiðandi einn helsti óvinur íslenskra kvenna samkvæmt mörgum "jafnréttisfrömuðum" - get ég fullyrt að ég hef aldrei heyrt nokkurn mann halda því fram að ekki eigi að kjósa frambjóðanda vegna þess að hún er kona, eða að ekki eiga að ráða einstakling í vinnu vegna þess að hún er kona. Þessi sjónarmið hafa ekki einu sinni komið fram á leynilegum fundum okkar stuttbuxnadrengjanna sem konum er ekki boðið á (kaldhæðni...look it up). Björk virðist sammála mér í þessu.

Hvað varðar prófkjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík verð ég að viðurkenna að árangur kvenna í því olli mér vonbrigðum að einu leyti. Soffía Kristín hefði, að mínu mati, átt að fá miklu betri kosningu en lítil efni kosningabaráttu henna útskýra að miklu leyti hvernig fór. Hinir kvenframbjóðendurnir voru einfaldlega óspennandi. Lára Margrét og Katrín Fjeldsted eru rugludallar sem ég hef enga löngun til að sjá á þingi og Sjálfstæðisflokkurinn hefur mun betri ráðherraefni en Sólveigu Pétursdóttur (sem væntanlega fékk embættið af því að hún gengur í kjól - Salvör hlýtur að vera sátt við það).

Best að ég hætti núna áður en ég gref mér enn dýpri gröf.
Samfylkingarblús

Var að horfa á Kastljósið þar sem þeir Stefán Hrafn Hagalín, "hægrikrati" og Sjálfstæðismaður og Ásgeir Friðgeirsson "ritstjóri" spjölluðu við Kastljósnördana um Samfylkinguna og það hvernig hún er orðin Allaballaklón. Hafi Ásgeir ætlað að vinna öðrum flokkum fylgi á kostnað Samfylkingarinnar tókst honum afbragðs vel upp. Umræðan snerist að miklu leyti um "heimilislausa hægrikrata" (eins og Ásgeir segist hafa verið þar til hann gekk í Samfylkinguna) sem hvergi passa inn í flokkakerfið. Aðspurður hikaði Ásgeir við að segja að áðurnefndir hægrikratar ættu að kjósa flokkinn - og gaf þar með fullyrðingum Stefáns Hrafns um að Allaballarnir hafi yfirtekið Samfylkinguna, byr undir báða vængi.

Stefán Hrafn var hins vegar ótrúlega góður talsmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann gerði góðlátlegt grín að Ásgeiri og Samfylkingunni og færði fyrir því sannfærandi rök að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki hinn mikli andstæðingur alþýðunnar og velferðarkerfisins sem vinstri menn vilja vera láta. Benti hann réttilega á að þrátt fyrir allan áróðurinn og moldviðrið um að Samfylkingin sé fylgjandi frjálsri verslun og vill styðja við atvinnulífið í landinu hefur ekki eitt orð heyrst úr herbúðum þeirra um hvernig flokkurinn ætli að gera það. Þvert á móti vaða kommar eins og Jóhanna Sig. uppi með endalausar árásir á þá sem drýgt hafa þann hræðilega glæp að græða peninga og virðast ekkert vilja frekar en hirða af þeim allan þann pening sem ríkið getur komist upp með.

Já, hægrikratar eru svo sannarlega heimilislausir - að minnsta kosti er ekkert heimili fyrir þá að finna innan Samfylkingarinnar.

Þá fannst mér Stefán Hrafn skemmtilega hrokafullur, sérstaklega þegar hann talaði um hina heimilislausu hægrikrata sem "ungt fólk sem er sæmilega statt efnahagslega, er ekki fatlað og ekki einstætt" og ætti því örugglega ekki heima hjá Vinstri-Grænum. Óstjórnlega ó-pc en drullufyndið.
---

Ja hérna hér. Það er aldeilis að maður á frábæra vini. Guðmundur Svansson og Tommi Pottur höfðu báðir eitthvað fallegt að segja um mig í dag. Ég vil taka það fram að á bloggaralistanum mínum hér til vinstri má finna þá báða, enda eru þeir frábærir bloggarar og með skemmtilega hannaðar síður. Svo er ég einnig með hlekki á Ástu Sóllilju og Obbu, sem ekki aðeins eru stórskemmtilegir bloggarar heldur einnig í hópi minna bestu vina. Ég vildi samt óska þess að þær skrifuðu oftar - en maður sýnir móðurhlutverkinu, stjarnfræðilega mikilli pólitískri vinnu og próflestri samt ákveðinn skilning. Eyrún hlýtur samt að vera allra latasti bloggerinn á vefnum.
---

Var að sjá að enska síðan mín, Stillborn Ideas, hefur fengið náð fyrir augum ritstjóra dmoz - Open Directory Project - og er í flokknum News/Analysis_and_Opinion/Columnists/Humor/Anti-establishment/. Vííííí. Ég þarf að fara að skrifa eitthvað á djöfulinn. Það er gott og blessað að vera með sniðuga linka en ef ég á að standa undir Columnist nafninu verð ég væntanlega að skrifa eitthvað meira en lýsingar á linkum.

Monday, December 02, 2002

Að helginni lokinni

Það styttist í próf og mér finnst það hreint ekkert sniðugt. Ég man þegar, á mínum sósíalísku árum, ég var á móti einkunnakerfi sem mismunaði þeim sem stóðust próf. Ég var á þeirri skoðun að þegar viðunandi þótti að svara 50% spurninga rétt ættu þeir sem stæðust próf einungis að fá staðfestingu á því. Þetta þýddi í raun að um tveggja eininga kerfi væri að ræða - féll/stóðst. Svona var sossinn harður í manni í gamla daga. Ég geri ráð fyrir því að þeir sem þetta lesa geti verið sammála því að sósíalískari hugmyndir sé erfitt að finna.

Kominn er út töluvuleikur um turtildúfurnar Jennifer Lopez og Ben Assfleck. Hólí krapp hvað ég held að það sé leiðinlegur djöfull.

Deiglan var sérstaklega góð í dag. Pistlarnir eftir Davíð og Pawel voru til fyrirmyndar og öðrum til eftirbreytni. Það er líka alltaf gaman þegar menn taka sig til og sparka í það hundshræ sem Kommúnisminn er.

Tommi furðar sig á lauslæti Norðmanna samkvæmt niðurstöðum könnunar Durex. Þetta minnir mig nú á aðra könnun þar sem í ljós kom að meðal Norðmanna er hæst hlutfall "exibitionista" (fólk sem nýtur þess að stunda kynlíf þar sem annað fólk getur komið að því - eða jafnvel þar sem annað fólk sér til) í Evrópu. Í könnuninni kom fram að allt að tveir þriðju fullorðinna Norðmanna viðurkenndu að hafa fantaserað um svoleiðis aðstæður og einn þriðji viðurkenndi að hafa skellt sér í það. Þessir Norðmenn eru klikk.