Wednesday, April 09, 2003

Bowling For Columbine

Eftir að ég skrifaði á Deigluna pistil (Heimildarmyndin sem áróðurstæki) um heimildarmynd Michaels Moores, Bowling For Columbine, fékk ég tölvupóst þar sem ég var krafinn sönnunargagna fyrir ásökunum mínum í garð Moores. Slík upptalning á heimildum og gögnum á því miður ekki heima í pistli eins og þeim sem birtast á vefritunum, einfaldlega vegna þess hve þröngur stakkur manni er skorinn hvað varðar lengd á pistlunum. Hér eru hins vegar hlekkir á ýmsar heimasíður sem ég tel að ættu að sýna fram á það að ekki er um tilbúning af minni hálfu.

Bestu síðunni um Bowling For Columbine er viðhaldið af David Hardy, bandarískum lögfræðingi. Þar tekur hann fyrir helstu punkta myndarinnar þar sem höfundurinn hefur farið fremur frjálslega með staðreyndir, svo ekki sé fastar kveðið að orði. Þarna má m.a. finna ræðuna sem Heston hélt í Denver og samanburð á henni og klippingum Moores.

Önnur síða Hardys, sem tekur á atriðum í myndinni sem hann telur aðfinnsluverð, en ekki eins alvarleg og þau sem talin eru upp á aðalsíðunni.

Heimasíða geimferðadeildar Lockheed Martin, sem rekur m.a. verksmiðjuna við Deer Creek Canyon Road í Littleton, Colorado. Rennið í gegnum heimasíðuna og skoðið hvers konar eldflaugar þeir framleiða. Þær eru allar, eins og nafnið á deildinni gefur til kynna, framleiddar til að flytja annaðhvort menn, gervitungl eða annað slíkt út í geim.

Önnur heimasíða. Þessi maður segist hafa hringt í verksmiðjuna í Littleton til að ganga úr skugga um að Moore hafi haft rétt fyrir sér varðandi Lockheed Martin.

Sumir hafa haldið því fram að ég sé óvenjuviðkvæmur þegar kemur að meðferð Moores á Charlton Heston í myndinni. Að í viðtalinu við hann geri Moore enga tilraun til að láta Heston líta út fyrir að vera rasista. Þetta er rangt, enda ber Moore þessa lygi sjálfur út eins og í viðtali sem Katie Couric á NBC sjónvarpsstöðinni (þarf að fletta töluvert neðar á síðuna) tók við hann. Þegar horft er til þess að hann klippti ræðu Hestons í Denver sundur og saman til að láta hann líta verr út og til þess að hann hafði áður reynt að tengja NRA við KKK og önnur rasistasamtök hallast ég frekar að því að Moore hafi klippt svör Hestons til að láta hann koma út sem rasista, en að Heston hafi sjálfur haft slíkar skoðanir frammi í viðtalinu.

Grein úr Forbes tímaritinu um Bowling For Columbine.

Grein úr tímaritinu The American Prospect um myndina þar sem Moore er ekki gagnrýndur fyrir staðreyndavillur heldur rangar áherslur í umfjöllun sinni.

Grein af spinsanity.org þar sem Bowling For Columbine er gagnrýnd.

Þótt hér sé aðeins farið út fyrir efnið er allt í lagi að benda á þessa grein af spinsanity.org, þar sem farið er yfir staðreyndafúsk og önnur miður skemmtileg vinnubrögð af hálfu Moores í bókinni Stupid White Men.

Að lokum verð ég að segja að það eru engin rök í þessari umræðu að benda á að Bowling For Columbine hafi fengið hin og þessi verðlaun. Það eina sem það segir okkur er að hópur fólks hafi ákveðið að veita Moore styttu, en er ekki bein sönnun fyrir því að allt sem í myndinni er sé satt og rétt.